Málfrelsi, skoðanafrelsi, tjáningafrelsi

Hinn skeleggi kollegi minn í leiðsögumannastéttinni, Lára Hanna Einarsdóttir, skrifaði um daginn færslu undir sama heiti um tjáningarfrelsið. Tilefni færslunnar var að starfsmaður Toyota á Íslandi hafði verið sagt upp störfum eftir að hafa gagnrýnt stjórn fyrirtækisins harkalega á bloggsíðu sinni. Í færslu Láru Hönnu, og í athugasemdum við hana, virtist koma fram sá algengi misskilningur að 73. grein stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi ætti að tryggja það að hver sem er gæti sagt hvað sem er án þess að það hefði afleiðingar í för með sér. Svo er þó ekki. Þessi grein stjórnarskrárinnar er sett til að tryggja að stjórnvöld geti ekki sett lög um ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsinu, eins og það er orðað. Þetta þýðir hins vegar ekki að fólk geti ekki þurft að axla ábyrgð á því sem það segir opinberlega, t.d. með málsókn eða því að vera sagt upp störfum. Maður, sem gagnrýnir fyrirtæki sitt opinberlega, getur átt það á hættu að vera sagt upp störfum, svo einfalt er það. Lára Hanna tiltekur nokkur dæmi þar sem fjölmiðlafólk hafði verið sagt upp störfum og ýjar að því að það hafi verið vegna skoðana þeirra, án þess að rökstyðja það neitt frekar. 

En ég þekki raunverulegt dæmi um að einstaklingur hafi verið útilokaður frá starfi hjá tilteknu fyrirtæki fyrir að setja fram skoðanir sínar opinberlega. Já, ég hef nefnilega lent í því sjálfur.

Árið 1993 ákvað þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavik að breyta Strætisvögnum Reykjavíkur (SVR) í hlutafélag. Þessi ákvörðun var vægast sagt umdeild og illa undirbúning og olli eðlilega mikilli óánægju meðal starfsmanna fyrirtækisins. Í borgarstjórnarkosningunum 1994 sameinuðust þáverandi minnihlutaflokkar í einu framboði í nafni R-listans. Eitt af aðalkosningamálum hans var að breyta SVR aftur í borgarfyrirtæki og taka upp „opin og lýðræðisleg vinnubrögð“, orð sem eru mjög töm mörgum á vinstri kantinum. R-listinn vann sigur í kosningunum og er engin vafi að þetta mál vó þungt í því sambandi.  Eitt af hans fyrstu verkum var svo að efna þetta loforð um að breyta SVR aftur í borgarfyrirtæki. En svo kom bara á daginn að alt tal um „opin og lýðræðisleg vinnubrögð“ hjá SVR reyndist vera orðin tóm og ítrekað var gengið framhjá óskum starfsmanna fyrirtækisins og nýtt fólk ráðið inn í nýjar stöður og gömlum starfsmönnum ýtt til hliðar.

Ég skrifaði því grein í Morgunblaðið í ágúst 1995 þar sem ég gagnrýndi ýmislegt í vinnubrögðum meirihluta stjórnar SVR. Þáverandi stjórnarformaður SVR reyndi að svara þessari grein minni hálf máttleysislega sem ég svaraði svo aftur. Margir fyrrum félaga minna hjá SVR sögðu mér að með þessu væri ég öruggur um að fá aldrei starf hjá fyrirtækinu aftur. Og það reyndist vera rétt. Að loknu námi í Bandaríkjunum kom ég heim og vantaði tímabundið vinnu meðan að ég væri að finna mér starf við hæfi minnar menntunar. Ég ákvað að prófa að sækja um hjá SVR, vissi að þeim vantaði vagnstjóra, og láta á það reyna hvort þetta væri rétt, að ég fengi ekki vinnu út af þessum greinum sem ég hafði skrifað.

Og til að gera langa sögu stutta þá reyndist það vera rétt. Mér var tjáð að það mætti ekki ráða mig sem vagnstjóra hjá SVR vegna þessara greina sem ég hafði skrifað. Og þetta ráðningabann stóð þar til að SVR rann inn í Strætó bs. og skipt var um yfirmenn.

Ég nýtti mér því tjáningarfrelsið, sem stjórnarskráin veitir, til að tjá skoðanir mínar. Ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að þetta gæti haft ákveðnar afleiðingar í för með sér, sem og það gerði. Og ég tók þeim afleiðingum án þess að kvarta og kveina. Og án þess að væla yfir ritskoðun eða höftum á skoðanafrelsi. Ég var tilbúinn til að taka afleiðingum þess að tjá skoðanir mínar. Og það af hendi fólks sem hæst talaði þá um málfrelsi og um „opin og lýðræðisleg vinnubrögð“. 

Þessa daga finnst mér ég oft vera kominn 14-15 ár aftur í tímann. Nú er aftur talað fjálglega um „lýðræði“, „gagnsæi“ og „opin“ vinnubrögð. En þegar komið er í valdastólana er byrjað á því að ýta til hliðar fólki, sem ekki er þeim sömu þóknanlegt. Og „sitt fólk“ sett í staðinn. En alt er þetta svo „opið, lýðræðislegt og gagnsætt“, ekki satt? 

Ég hef það einhvern veginn svo sterklega á tilfinningunni að aftur eigi þetta að reynast merkingalaust blaður, blaður sem ótrúlega margir eigi eftir að falla fyrir.


Eru almenningssamgöngur úreltar?

Nei, ekki er það svo að það sé skoðun mín, langt í frá. En þetta var fyrirsögn á grein sem ég samdi ásamt félaga mínum og birtist í Mogganum árið 1994. Þar færum við rök fyrir öflugum almenningssamgöngum og mér fannst rétt í ljósi nýlegs niðurskurðar á þjónustu Strætó að grafa þessa grein upp og birta hana aftur. Þó svo að þær tillögur, sem í henni eru, miði við það leiðarkerfi sem þá var í gildi er ég enn þeirrar skoðunar að strætókerfi eigi að byggjast á hverfisleiðum, sem smali fólki saman á skiptistöðvar og þar séu vagnar sem gangi niður í bæ.

En greinin er svo hljóðandi:

„Eitt af því sem segir til um á hversu háu menningarstigi borg er, er það samgöngukerfi sem hún hefur á að skipa. Þegar við tölum um samgöngukerfi í þessum skilningi, þá erum við ekki einungis að tala um gatnakerfi heldur um þá valkosti sem í boði eru til þess að ferðast innan borgarmarkanna.

Því nefnum við þetta að okkur hefur virst sem að gatnakerfi borgarinnar sé við það að springa vegna mikilla aukningar umferðar einkabíla. Hefur þessi mikla aukning orði þess valdandi að borgaryfirvöld í Reykjavík hafa litið á einkabílinn sem ráðandi samgöngutæki innan borgarmarkanna. Hafa og fjárfestingar borgarinnar í samgöngumálum miðast fyrst og fremst við einkabílinn. Þetta hefur og orðið til þess að borgaryfirvöld hafa lagt minni áherslu á að byggja upp öflugar almenningssamgöngur. Að okkar mati er þetta að vissu leyti eðlilegt miðað við þau viðhorf sem uppi hafa verið um einkabílinn í þjóðfélaginu síðustu tvo áratugi. Samhliða þessum viðhorfum um einkabílinn hefur borgin vaxið á meiri hraða en áður hefur þekkst svo oft hefur lítt við ráðist. Velmegun síðustu ára virðist hafa lokað augum manna fyrir þjóðhagslegri hagkvæmni almenningssamgangna. Í því tilliti hefur einungis verið litið á þann óhjákvæmilega kostnað sem hlýst af almenningssamgöngum í Reykjavík. Borgaryfirvöldum virðist hafa yfirsést hvað sparast með öflugum almenningssamgöngum, þ.e. minna slit og uppbygging samgöngumannvirkja, minni slysatíðni, minni mengun o.s.frv. Við álítum að almenningssamgöngur séu fjárfesting sem borgar sig, þó svo að hagnaðurinn af þeim komi fram í öðru, en í glerhörðu gulli á efnahagsreikningi SVR.

Einnig er rétt að benda á að fjöldi fólks hefur ekki um aðra kosti að velja en að nota strætisvagna auk þess sem einhver hluti fólks vill hafa val um hvort það notar einkabíl eða strætó. Að nota strætó á að vera valkostur en ekki neyðarúrræði.

Ef við skoðum núverandi leiðakerfi SVR þá teljum við að borgaryfirvöld og stjórn SVR hafi ekki gefið þessum málum nægilegan gaum. Þó leiðakerfið hafi á sínum tíma verið mikil framför frá þáverandi leiðakerfi er það orðið nær aldarfjórðungs gamalt og orðið að mörgu leyti úrelt. Okkar mat er að hægt hefði verið að fara aðrar leiðir er hefðu skilað mun meiri árangri en þær er farnar voru á sínum tíma, er ferðum vagna var fækkað um allt að helming. Teljum við að réttara hefði verið að skipuleggja leiðakerfið upp á nýtt um leið og borgin stækkaði, í stað þess að bæta sífellt við það gamla án þess að skoða hvert stefndi. Það er ljóst að með því að endurskipuleggja núverandi leiðakerfi SVR, megi fá mun skilvirkara kerfi án þess að leggja út í umtalsverðan kostnað. Þetta má gera á eftirfarandi hátt.

Í fyrsta lagi mætti breyta kerfinu þannig að ein leið æki frá Lækjartorgi og önnur frá Hlemmi upp í skiptistöðina í Mjódd þar sem hverfisvagnar væru staðsettir. Þannig myndi skiptistöðin í Mjódd virka sem raunveruleg skiptistöð sem hún gerir ekki í dag. Í dag eru um 11 vagnar í akstri upp í Breiðholt, þrír á leið 12, fjórir á leið 11 og fjórir á leið 111 og 112. Leiðir 11 og 12 ganga á 20 mínútna fresti en leiðir 111 og 112 á þrjátíu mínútna fresti. Ef einn vagn æki á fimmtán mínútna fresti frá Lækjartorgi upp í Mjódd og annar frá Hlemmi upp í Mjódd þyrfti í það 8 vagna. Til að aka úr Mjódd upp í Fella- og Hólahverfi annars vegar og Seljahverfi hins vegar væri hugsanlega hægt að komast af með 3-­4 vagna. Með þessu væri hægt að bjóða upp á ferðir frá Lækjartorgi og Hlemmi upp í Breiðholt á fimmtán mínútna fresti með svipuðum vagnkosti og er nú í að aka þessar leiðir á tuttugu til þrjátíu mínútna fresti. Við þetta má bæta að í núverandi kerfi aka leiðir 111 og 112 sömu leið frá Lækjartorgi að Mjódd og á sama tíma. Oft er því hvor leið fyrir sig að aka með farþega á sömu biðstöðvar, t.d. biðstöðina við Kringluna, á sama tíma.

Í öðru lagi má athuga hvort ekki sé hægt að koma fyrir skiptistöð upp á Ártúnshöfða þar sem vagnar ækju áfram út í Grafarvog og upp í Árbæ. Í dag þarf ellefu vagna til að halda uppi þjónustu við þessi hverfi á tuttugu mínútna fresti (klukkutíma fresti frá Lækjartorgi) en hugsanlega væri hægt með sama vagnakosti að koma á fimmtán mínútna ferðatíðni ef þessu yrði breytt á þennan veg.

Í þriðja lagi má hugsa sér hvort ekki sé óþarfi að láta leiðir 1, 2, 3 og 4 aka bæði vestur í bæ og austur í bæ. Í flestum tilvikum fara farþegar, sem t.d. taka leið 2 í austurbænum, úr á Hlemmi eða á leiðinni frá Hlemmi niður á Lækjatorg. Í fæstum tilvikum halda þeir áfram með vagninn vestur á Granda. Því mætti hugsa sér að hafa eina til tvær leiðir sem ækju frá Lækjartorgi vestur í bæ, í stað fjögurra núna, og þess í stað hefðu leiðir 1­4 endastöðvar á Lækjatorgi og ækju þaðan austur í bæ. Með þessu væri hugsanlega hægt að auka ferðatíðnina á þessum leiðum í fimmtán mínútur.

Auk þessa myndu allar þessar breytingar gefa kost á rýmri tímaáætlun, sem í dag er mjög stíf á flestum leiðum, þannig að farþegar gætu frekar treyst því að vagninn væri á réttum tíma. Það er undirstaða þess að fólk geti notað almenningssamgöngur sem skyldi og það geti treyst því að vagnar séu á áætlun.

Hér hefur verið velt upp nokkrum hugmyndum um hvernig bæta mætti núverandi leiðakerfi SVR þannig að halda mætti uppi fimmtán mínútna ferðatíðni með litlu meiri vagnakosti en nú er notaður. Megintilgangur okkar með þessu er að vekja borgaryfirvöld til umhugsunar um, hvort ekki megi finna leiðir til að bæta núverandi leiðakerfi og sníða verstu agnúana af því án þess að það þyrfti að þýða mikinn kostnaðarauka fyrir borgarsjóð.“

 


Hvað með ráðuneytisstjórastöðuna?

Ásmundur Stefánsson er sennilega sá maður á Íslandi sem hefur hvað mesta reynslu og sérfræðiþekkingu af bankamálum. Hann hefur orð á sér að vera heiðarlegur og traustur maður sem lætur málefnaleg rök ráða afstöðu sinni. Nú hefur bankaráð Landbankans óskað eftir því að hann sinni starfi bankastjóra tímabundið fram á haust. Steingrímur Joð vill að ekki verði beðið með að auglýsa og ráða nýjan bankastjóra.

Í gær setti sami Steingrímur Joð, Indriða Hauk Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóra með meiru, tímabundið sem ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Indriði er með gífurlega þekkingu og reynslu sem embættismaður hjá hinu opinbera. Hann er jafnframt af þeim sem þekkja til (og ég er þar á meðal) talinn búa yfir sömu mannkostum og Ásmundur Stefánsson.

Hver er eiginlega munurinn á þessu tvennu?  Enginn, í báðum tilfellum er verið að leita til hæfra manna til að taka að sér erfitt starf til skamms tíma. Annað hvort á að auglýsa bæði störfin strax og ráða í þau strax. Eða leyfa þeim, sem best telja, að ráða hæfasta aðilann þar til tími gefst til að auglýsa stöðuna og ráða nýja manneskju.

Eini munurinn er að annar gjörningurinn þóknast Steingrími Joð, hinum ekki.

 


mbl.is Auglýsi stöðuna sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað með störf sem tapast í staðin?

Helstu rök hvalveiðisinna eru að með því að leyfa hvalveiðar skapist ný störf, eða um 200-300 störf. Vel má vera að það sér rétt en hvað með þau störf í ferðaþjónustu sem gætu tapast á móti? Við, sem störfum í ferðaþjónustu, vitum vel að hvalveiðar og ferðaþjónusta (og þá er ég ekki bara að tala um hvalaskoðun), fara illa saman. Þó svo að mitt fyrirtæki sé bara smáfiskur í bransanum rigndi yfir mig á tímabili tölvupóstur með mótmælum gegn hvalveiðum. Árið 2006 voru gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu tæp 13% af útfluttum vörum og þjónustu, næst á eftir sjávarútvegi og stóriðju. Og ferðaþjónusta og tekjur af henni ætti að geta aukist á næstu mánuðum og árum ef rétt er haldið á spilunum. En hvalveiðar eru ekki gott útspil í því sambandi og til lítils að skapa störf í kringum hvalveiðar ef störf og tekjur í ferðaþjónustu minnka að sama skapi.

Og á sama tíma og mikið er talað um að hlusta eigi á hagsmunaðila í sjávarútvegi er fussað og sveiað yfir sjónarmiðum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og jafnvel látið að því liggja að hvalaskoðunarfyrirtæki fái greiðslur frá hvalaverndunarsamtökum til að halda uppi gagnrýni á hvalveiðar. Já, hún er ekki alltaf sem málefnalegust umræðan í þjóðfélaginu.


mbl.is 200 störf slegin út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að axla ábyrgð eða hlaupast undan henni?

Óhætt er að segja að frétt dagsins sé afsögn Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra. Viðbrögð fólks hafa verið nær á einn veg; að hér hafi hann loksins „axlað ábyrgð“ á ástandinu, helst þó full seint. En hvað er að axla ábyrgð? Hvernig axla ráðherrar ábyrgð eins og staðan er í dag? Íslendingar standa frammi fyrir stærri vandamálum í efnahagsmálum en í háa herrans tíð. Núverandi ríkisstjórn er að standa í viðamiklum bjögunaraðgerðum í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Sjaldan hefur nokkur ríkisstjórn unnið undir jafn miklu álagi og ráðherrar og aðrir þingmenn setið undir gífurlegu áreiti fjölmiðla og almennings. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa nú viðurkennt og samþykkt að boða þurfi til kosninga í vor. Þá verða verk þessarar ríkisstjórnar, þar með talið það sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum, lögð undir dóm kjósenda og allt stefnir í að sá dómur verði þungur. Björgvin G. Sigurðsson hefur nú ákveðið að stökkva frá borði og stuðla því frekar að því að ríkisstjórnin springi og hér verði stjórnarkreppa fram að kosningum (nei, það verður flóknara en margur heldur að mynda hér starfhæfa ríkisstjórn fram að kosningum) og jafnvel vel fram yfir kosningar (en um möguleikann á stjórnakreppu eftir kosningar fjalla ég betur um í annarri færslu). Því hefur hann að mínu mati ekki axlað neina ábyrgð, hann hefur frekar hlaupist undan þeirri ábyrgð að hafa hér starfhæfa ríkisstjórn fram að kosningum.

Aðdáunarvert langlundargeð lögreglunnar

Í öllum þeim hamagangi sem gengið hefur á í vetur hef ég dáðst að þolinmæði og langlundargeði lögreglunnar gagnvart mótmælendum. Og síðustu daga hef ég sérstaklega dáðst að þessu þar sem lögreglumenn hafa þurft að sitja (eða frekar standa) undir margs konar sendingum frá mótmælendum, bæði af munnlegum og áþreifanlegum toga. Þrátt fyrir það hafa þeir haldið ró sinni og látið ótrúlegustu hluti yfir sig ganga. Lögreglumenn eru langt frá því einsleitur hópur, frekar en aðrar stéttir manna s.s. leiðsögumenn eða kennarar (stéttir sem ég tilheyri), og margir þeirra eru vafalaust í hjarta sínu sammála mörgu því sem mótmælendur hafa haldið fram. En þeir hafa á síðustu dögum sýnt einstaka fagmennsku og þolinmæði. Fyrir það eiga þeir lof skilið. Því í mörgum öðrum lýðræðisríkjum væri mun harkalegar tekið á fólki, sem hefur frammi þá hegðun sem við höfum orðið vitni að.

Yrði ástandið virkilega eitthvað betra?

Á meðan að formaður Samfylkingarinnar er erlendis í læknismeðferð lúffar Samfylkingarfólk í Reykjavík fyrir háreisti mótmælenda. Það er auðvelt að vera í ríkisstjórn þegar vel gengur í þjóðfélaginu og í efnahagsmálum. Það reynir hins vegar fyrst á kjark stjórnmálamanna og dug þegar illa gengur og öll spjót standa að þeim. Þá skiptir miklu að halda haus og haga sér ekki eins og vindahanar eftir því hvernig blæs hverju sinni og eftir því hverjir hafa hæst (sem eru ekki endilega þeir sem njóta mest fylgis). Þeir sem gala nú hæst um „byltingu“ og að þeir tali í nafni þjóðarinnar munu efalaust fagna hressilega verði þessu ríkisstjórnarsamstarfi slitið og boðað til nýrra kosninga.

Og kannski væri þá best fyrir þá að fá hér stjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar, já og væntanlega yrðu Framsóknarmenn að koma þar inn líka, nýbúnir að hvítþvo sig af syndum fortíðar. Steingrímur Joð sem forsætisráðherra, Ögmundur sem fjármálaráðherra, Kolbrún Halldórs sem dómsmálaráðherra (eða kannski Álfheiði Inga frekar, hún væri „kúl“ sem yfirmaður lögreglunnar enda með rétta „attitjúdið“!). Það væri nú ríkisstjórn í lagi!

Nei, ég held nefnilega að þá myndu mótmælendur fljótt komast að því að þá fyrst væri ástandið orðið „helvítis fokking fokk“.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega bara sumir vera reiðir?

Það er svolítið kúnstugt að fylgjast með því þessa daga hvernig þeir, sem hæst hafa talað um rétt fólks til að vera reitt, hneykslast nú á að tveir bræður hafi sýnt reiði gagnvart mótmælendum á Gamlársdag. Sama fólk og hefur varið lætin á borgarstjórnarfundinum, þegar fúkyrðum var ausið yfir Ólaf F og félaga, eggjakast í Alþingishúsið og jafnvel lætin við Lögreglustöðina, allt í nafni lýðræðis og málfrelsis, skrifar nú arfahneykslaðar bloggfærslur gegn þessum tveimur mönnum. Jafnvel er ýjað að því að segja ætti mönnum þessum upp störfum og lítið gert úr þroskastigi þeirra, líkt og sjá má í þessari bloggfærslu.

Samkvæmt þessu er í fínu lagi að vera öskureiður út í Davíð, Geir, Ingibjörgu, Jón Ásgeir, Björgólfsfeðga, Bjarna Ármanns og guð má vita hverja. Og ekkert að því að sýna þá reiði með öskrum, köllum, eggjakasti, bumbuslætti, berjandi rúður og þaðan af verra. Já, og það er greinilega í fínu lagi að hrópa að Ólafi F að hann sé „enginn fokkings borgarstjóri“. En þegar menn reiðast mótmælendum og láta það í ljós gagnvart þeim m.a. með því kalla þá „kommúnistadrullusokka“, þá ná þeir sömu ekki upp á nefið á sér fyrir reiði og hneykslun. 

Nei, það er greinilega ekki það sama að vera mótmælandi eða mótmælandi mótmælenda!


Börn eiga að fá að vera börn

Þó svo að málflutningur ræðumanna á þessum fundum hafi á köflum verið æði barnalegir, sbr. málflutning laganemans sem ég hef gagnrýnt áður á þessu bloggi, hlýtur það að vera nýtt að tefla fram 8 ára barni sem ræðumanni.  Ég get tekið undir það að hér er á ferðinni skemmtilegt barn og skörulegt og vera má að hún sé afar sjálfstæður einstaklingur, eins og haldið er fram hér, en málflutningur hennar ber þess augljóslega merki að hér er barn á ferðinni. Til dæmis eru fullyrðingar hennar um að Alþingismenn séu „alltaf í fríi“ fjarri lagi raunveruleikanum (sennilega er sjaldfundnari stétt fólks sem fær minna frí en einmitt stjórnmálamenn), þó að þetta hafi fallið vel í kramið hjá áheyrendum. En kannski lýsir það bara mótmælunum í hnotskurn; innantómar staðhæfingar sem hljóma vel í eyrum.

Og í guðanna bænum leyfið börnum að vera börnum áfram, ekki tefla þeim fram í pólitískum hráskinnaleik. 


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt ár og uppskrift dagsins

Gleðilegt nýtt ár öllsömul. Jæja, í gærkvöldi var ég með lambalæri í matinn. Ef einhver hefur áhuga á uppskriftinni þá kemur hún hér:

Lambalæri, 2-2,5 kg.
Hvítlaukur.
Blóðberg, ferskt.
Minta, fersk.
Rósmarín, ferskt.
Salt og pipar.
Hunang og Dijon-sinnep (u.þ.b. 2 matskeiðar af hvoru).

Fitusnyrtið lærið og skerið rifur með hníf hér og þar, stingið hvítlauksrifi í rifurnar og rósmarín, mintu og blóðbergi (því meira því betra).
Saltið og piprið.

Setjið lærið í 220° heitan ofn í u.þ.b. 10-15 mínútur og lækkið svo hitann í 175°.
Steikið í u.þ.b. 45 mínútur á kíló.
Síðust 10-15 mínútur berið á blöndu af hunangi og Dijon-sinnepi.
Látið standa í 10-15 mínútur áður en lærið er skorið.

Sósa:

Blóðberg, ferskt.
Rósmarín, ferskt.
Minta, fersk.
Einiber.
Smátt saxaðir sveppir.
2 1/2 dl. rjómi.
Villibráðakraftur.

Blóðberg, minta, rósmarín og einiber sett í pott með 5-7 dl. af vatni. Látið koma upp suðu og látið malla í 1-2 klukkustundir. Sigtið soðið. Bræðið smá smjör í pott og steikið sveppina þangað til þeir eru orðnir að mauki. Setjið soðið saman við og hitið að suðu. Bætið við rjóma og látið sjóða hægt smá stund. Þykkið með sósujafnara og bragðbætið með villibráðakrafti.

Verði ykkur að góðu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband