31.12.2008 | 17:47
Lýðræðisást mótmælenda
sjónvarpinu á meðan ég var að undirbúa steikina fyrir kvöldið. Í þessum þætti, sem löng hefð er komin á, mætast formenn stjórnmálaflokkanna til að gera upp árið og í ár var
virkilega spennandi þáttur framundan þar sem búast mátti við snörpum
orðaskiptum þeirra á milli. Og sérstaklega var beðið eftir að forsætisráðherra kæmi í hús því þá mátti búast við föstum skotum frá Steingrími joð og jafnvel Guðjóni Arnari. En hvað gerist? Fámennur hópur mótmælenda mætir á staðinn og reynir allt hvað hann getur til að trufla umræðurnar og vinnur svo slík spjöll á tæknibúnaði Stöðvar 2 að það þurfti að hætta þættinum. Fólk, sem hæst galar um lýðræði, sá til þess að þorri þjóðarinnar missti af því tækifæri að sjá formenn stjórnmálaflokkanna takast á um málin á lýðræðislegan hátt. Vafalaust eiga þó nokkrir eftir að verja þessar aðgerðir og eflaust verður nornin þar fremst í flokki. En ég held að flestir Íslendingar séu farnir að átta sig á að þetta fólk talar alls ekki í nafni þjóðarinnar. Og lýðræðissinnar eru það svo sannarlega ekki, það sannaði það svo rækilega í dag.
Lögreglumaður kinnbeinsbrotinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2008 | 22:50
Hvar er kreppan?
Hvar er kreppan? spyr Ásgeir Hvítaskáld í grein í Morgunblaðinu 28. nóvember sl. Ég held ég geti tekið undir mikið af því sem hann bendir á og hvet alla til að lesa þessa grein.
30.11.2008 | 20:10
Gott að vita að fleiri en ég eru á sama máli
Um daginn bloggaði ég um mótmælin á Austurvelli. Þar benti ég m.a. á að laganeminn, Katrín Oddsdóttir að nafni, hafi í ræðu sinni opinberað skelfilega vanþekkingu á Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og almenna vanþekkingu á eðli íslenskrar stjórnsýslu og stjórnmálum. Og að eina svar hennar væri að boða einhvers konar byltingu.
Samnemendur hennar í lagadeild HR skrifuðu góða grein í Morgunblaðið þann 27. nóvember sl. þar sem þeir réttilega benda á galla á málflutningi hennar. Sumir virðast leggja meiri áherslu á að ræða hennar hafir verið skörulega flutt eins og má sjá á þessari bloggfærslu. Ég sjálfur tel að innihald skipti meira máli og innihaldslega var ræða hennar hvorki fugl né fiskur. Og það hlýtur að vera hægt að gera þá eðlilegu kröfu að þeir sem leggja stund á lögfræði sýni lágmarks skilning á viðeigandi lögum þegar þeir tjá sig opinberlega. Hitt er svo annað mál að hún á að hafa fullt málfrelsi og HR má vitna í hana sem nemanda við skólann eins og aðra. Svo er það annað mál hversu góður fulltrúi nemenda við HR hún er.
22.11.2008 | 22:57
„Fíflið á Bessastöðum“
Ólafur Ragnar Grímsson (ekki Hannesson!) var á sínum tíma einn umdeildasti og skrautlegasti stjórnmálamaður Íslands. Fyrst komst hann á þing á vegum Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna (sem sumir vildu kalla Mistök frjálslyndra og vinstri manna) en síðar fyrir Alþýðubandalagið sálugra. Ólafur varð sjaldan orða vant, þannig eru fræg ummæli hans um skítlegt eðli þáverandi forsætisráðherra, en þau komu þó mörgum ekki á óvart sem höfðu lengi fylgst með stjórnmálaferli hans. Skort hans á almennri kurteisi virtist þó ekki hafa vafist fyrir mörgum kjósandanum þegar hann bauð sig fram til embættis Forseta íslenska lýðveldisins og svo fór sem fór. Síðan þá hefur honum gefist fjölmörg tækifæri til að sættast við andstæðinga sína.
Besta tækifærið bauðst þegar fjölmiðlafrumvarpið fræga var samþykkt með meirihlutaatkvæði þingmanna. Þá hefði hann getað blásið á getgátur um að hann væri enn í pólitík og gert eins og aðrir forsetar og samþykkt lögin án þess að ganga í berhögg við meirihluta Alþingis. En nei, hann þurfti að hafa síðasta orðið og neitaði að skrifa undir lögin.
Sá ágæti sagnfræðingur, Guðjón Friðriksson, er nú búinn að skrifa bók um Ólaf Ragnar (ekki Hannesson!). Í viðtali nýverið viðurkenndi hann frekar undrandi að hann hefði heyrt Halldór Blöndal viðhafa þau ummæli um Ólaf Ragnar (ekki Hannesson!), sem sjá má í fyrirsögn þessarar bloggfærslu. Sami Guðjón virðist vera þeirrar skoðunar að það, að Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) hafi verið kosinn forseti leiði til þess að hann óhjákvæmilega njóti þess virðingar sem áður fylgdi forsetaembættinu. Ólafur Ragnar (ekki Hannesson!) virðist á köflum vera sama sinnis, að embættinu sjálfu fylgi sjálfkrafa virðing. Guðjón þessi sagði í viðtali við Fréttablaðið (að mig minnir) að Davíð Oddson væri maður hefnda en Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) væri maður sátta. Ef það væri rétt að Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) væri maður sátta hefði hann vel getað sýnt það með því að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið fræga. Þá hefði hann getað, eins og Vigdís Finnbogadóttir gerði, vísað í að forsetinn gengi ekki gegn vilja meirihluta Alþingis. Hann hins vegar kaus að fara eigin leiðir og stela senunni með því að neita að skrifa undir. Það sýndi ekki sáttarhug, fjarri lagi.
Ólafur Ragnar (ekki Hannesson!) hefur fengið tækifæri til að sýna sáttarhug og til að sættast við þá sem helst voru á móti kjöri hans. Hann kaus hins vegar að láta það eiga sig og frekar að baða sig fjölmiðlaljósinu sem sá eini forseti sem hefur gengið gegn meirihluta Alþingis. Sjálfur segi ég að ef hann hefði ekki synjað fjölmiðlafrumvarpinu heldur tekið afstöðu eins og fyrri forsetar, líkt og Vigdís þegar hún fékk tilmælin til að neita að skrifa undir EES-samninginn, þá hefði hann vaxið mikið í mínum augum og sannarlega staðið undir nafni sem forseti lýðveldisins.
22.11.2008 | 21:10
Fjöldinn skiptir ekki máli
Margir hafa gert mikið úr þeim fjölda sem tekur þátt í mótmælunum á Austurvelli hverja helgi. Lögreglan segir eitt og mótmælendur annað. En skiptir máli hversu margir mæta eða skiptir meira máli hversu margir mæta og vita af hverju? Um daginn sá ég mynd í Fréttablaðinu af hópi fólks sem hafði verið að kasta eggjum í Alþingishúsið og veifað mótmælaspjöldum á mótmælafundinum. Á myndinni bar ég kennsl á ungt fólk sem ég hafði kennt. Ég kenni samfélagfræði á unglingastigi þ.e. landafræði, Íslandssögu og þjóðfélagsfræði. Þetta ágæta unga fólk, sem ég þekkti á myndinni, veit ég að þekkir ekki grundvallarhugtök eins og lýðræði, lýðveldi, þingræði, hvað þá að það hafði yfirsýn og þekkingu á þeim atburðum sem hafa átt sér stað að undanförnu. En það er hins vegar þeir fyrstu til að mæta þar sem er aksjón og hasar.
Þegar fréttamaður Stöðvar 2 var að spyrja fólk, sem var að kasta eggjum í Alþingishúsið, hverju það væri að mótmæla varð fátt um svör. Unga konan var að mótmæla þessu öllu, eftir að hafa fengið hjálp frá vinkonu sinni, en annars virtist hún ekki geta mikið tjáð sig um hverju hún væri að mótmæla.
Önnur kona virtist skelfing lostin yfir því að fólk færi nú að missa húsnæði sitt í stórum stíl. Vissulega eiga einhverjir eftir að lenda í vandræðum með húsnæðislánin sín en ég leyfi mér þó að efast um að meirihluti almennings eigi eftir að lenda í þeim hremmingum. Ég veit nefnilega af biturri reynslu að það þarf mikið að hafa gengið á áður en til þess kemur að húsnæði er boðið ofan af fólki.
Laganeminn, sem talaði á fundinum í dag, upplýsti í ræðu sinni skelfilega vanþekkingu á Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og almenna vanþekkingu á eðli íslenskrar stjórnsýslu og stjórnmálum. Og virtist ekki kunna annað svar en að boða hálfgerða byltingu. Mig hryllir við að hún eigi nokkurn tímann eftir að útskrifast sem lögfræðingur ef hún kann ekki að virða eðlilegar leikreglur í stjórnmálum.
Þannig að það skiptir í raun ekki máli hversu margir mæta á Austurvöll. Það skiptir meira máli hverjir mæta vegna þess að þeir vita af hverju og hverju þeir eiginlega eru að mótmæla.
Íslendingar láti ekki kúga sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.10.2008 | 18:37
Rétta auglýsingin á þessum tímum?
Þessa heilsíðuauglýsingu var að finna í Mogganum á sunnudaginn. Ég verð að viðurkenna að mér fannst hún hálf kjánaleg svona á þessum síðustu og verstu tímum. Ég vona bara að sem fæstir hafi hlaupið eftir þessu og að meirihluti fólks sé það skynsamt að átta sig á að bílar eru verstu fjárfestingar sem hægt er að hugsa sér, hvort heldur í kreppu eða góðæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.10.2008 | 22:18
Held að hún ætti að fara að slaka á
Jæja, nú er Anna Pála enn að nota stóru orðin. Það sást vel á áhorfendapöllum Ráðhússins á sínum tíma að henni getur oft orðið frekar heitt í hamsi. Væntanlega hefur hún metnað til að ná langt í pólitíkinni. En þá er kannski betra fyrir hana að fara að læra að passa hvað hún segir.
2.10.2008 | 23:41
Sumum líður vel í dag
Í maí síðastliðnum minntist ég á að læða ein hefði tekið upp á því að taka okkur að sér sem kattahaldara. Nú, skemmst er frá því að segja að hún hefur dafnað vel og eins og sjá má á þessari mynd líður henni bara mjög vel hjá okkur. Þannig að sennilega valdi hún rétt þegar hún ákvað að mjálma ámótlega á svölunum hjá okkur!
2.10.2008 | 23:29
Hvað er að gerast?
Hrina árekstra í hálkunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 11:11
Jæja, þetta var þá ekki ímyndun
Snarpur jarðskjálfti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |