Stutt í næstu kosningar?

Það gæti orðið styttra í næstu kosningar en margur heldur. Vinstri grænir og Samfylking halda áfram í stjórn eins og þeir báðir hafa líst ítrekað yfir. Og það mun örugglega ganga í einhvern tíma en fyrr eða síðar kemur að stóra málinu; ESB. Annar flokkurinn vill þangað inn, hvað sem tautar og raular, og hinn flokkurinn er hugsanlega til í að skoða málið ef meirihluti þjóðarinnar kýs svo en er annars heitur á móti.

Í áratugi var afstaða manna til Atlantshafsbandalagsins (NATO) og veru bandarísks herliðs hér á landi það sem helst klauf fólk og flokka í heitar fylkingar og gat jafnvel sprengt ríkisstjórnir. Í dag ber varla á umræðu um þetta mál, þó svo að enn sjáist stundum „Ísland úr NATO“ slagorð er það í dag frekar hjáróma miðað við hitann í kringum það mál hér á árum áður.

Nei, á næstu mánuðum og árum verður það afstaðan til ESB og hvort Ísland eigi að sækja þar um aðild eður ei sem á eftir að verða hitamálið og það mál sem getur sprengt ríkisstjórnir. Því þykir mér ólíklegt að það ríkisstjórnarsamstarf haldi í fjögur ár. Þannig að það gæti orðið aftur kosningar innan fjögurra ára, allavega myndi það ekki koma mér svo mikið á óvart.


mbl.is Áherslan á ESB lýsir taugaveiklun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæltu manna heillastur

Í því upplausnarástandi, sem ríkt hefur í vetur, hafa stundum sprottið fram slagorð og fullyrðingar um að rætur efnahagshrunsins séu að finna í uppbyggingu stjórnmála- og stjórnkerfisins á Íslandi. Flestar þessar fullyrðingar hafa verið lítt studdar rökum, þannig fullyrti einn mælandi í Silfri Egils í vetur að koma hefði mátt í veg fyrir hrunið ef stórkerfið hefði verið öðruvísi, þ.e. ef hér hefði verið skarpari skil á milli framkvæmda- og löggjafarvalds eins og t.d. í Bandaríkjunum. Viðmælandi Egils láðist hins vegar alveg að rökstyðja það frekar og Egill fylgdi því ekki eftir að maðurinn kæmi með rök fyrir þessu. Eitt af þeim slagorðum sem hæst hafa glumið er um hið svo kallaða „stjórnlagaþing“. Fylgjendur þess leggja ofuráherslu á að breyta Stjórnarskrá Íslands og það sem fyrst. Kjósa á sérstakt stjórnlagaþing sem geti með einföldum meirihluta gert grundvallarbreytingar á stjórnskipun landsins. Og eins og fyrri daginn stukku vinstri flokkarnir til eftir þeim sem hæst höfðu og tóku málið upp á Alþingi.

Það geta held ég flestir verið sammála um að það megi breyta ýmsu í stjórnarskránni. Slíkar breytingar hafa fram að þessu verið gerðar í fullri sátt allra flokka á Alþingi. Nú á síðasta þingi átti að keyra í gegn breytingar í óþökk Sjálfstæðisflokksins, sem taldi að um slíkar breytingar ætti að ríkja almenn sátt og slíkar breytingar ættu að vera hafnar yfir daglegt pólitískt dægurþras. Og að stjórnarskráin væri slíkt plagg að ekki ætti að gera hana að pólitísku deilumáli.

Í Morgunblaðinu síðasta sunnudag birtist grein eftir Atla Harðarson heimspeking þar sem hann fjallar mjög vel og málefnalega um hvernig það á einmitt að vera mjög erfitt að breyta stjórnarskránni og að til að breyta stjórnarskrá ætti að þurfa aukinn meirihluta atkvæða, ekki bara einfaldan meirihluta. Ef einfaldur meirihluti á að nægja til að breyta stjórnarskrá og ef stjórnarskrárbreytingar eru keyrðar í gegn af ríkjandi meirihluta hverju sinni, hættir stjórnarskráin að virka sem slík og verður hluti af hinu pólitíska dægurþrasi. Slíkt ber að forðast.

Það breytir hins vegar ekki því að við þurfum alltaf að hafa lifandi og opna umræðu um stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins og vissulega að ræða ítarlega mögulega breytingar. En allar slíkar breytingar þurfa að vera í góðri sátt sem flestra og einnig er nauðsynlegt að flana ekki að grundvallaruppstokkun. Þrátt fyrir að þingræðisreglan, sem ríkt hefur á Íslandi í 105 ár (síðan að Heimastjórn komst á 1904), sé langt í frá gallalaus, þá er ekki þar með sagt að það sé eitthvað fullkomnara kerfi að hafa algeran aðskilnað á milli löggjafar- og framkvæmdavalds (líkt og í Bandaríkjunum), slík kerfi hafa líka ýmsa ókosti í för með sér. 

Hitt er svo annað mál, að það virðist litlar líkur á að slíkar róttækar breytingar verði á næstunni þar sem afsprengi „búsáhaldarbyltingarinnar“ virðist ekki ganga neitt sérstaklega vel með að ná til „þjóðarinnar“, þeirri sömu þjóð og þeir töldu sig tala fyrir.

 Atli


Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Það hefur verið hálf hlægilegt að fylgjast með viðbrögðum vinstri manna síðustu viku eftir að eftirfarandi auglýsing birtist í Morgunblaðinu síðasta sunnudag. Þeir tala digurbarkalega um að hér sé á ferðinni „ný og ógeðfelldar aðferðir í kosningabaráttunni“. Ég  hélt sem snöggvast þegar ég sá þessa fyrirsögn að hér væri verið að fjalla um ógeðfelldan (vinstri) grænan hræring, sem einhverjir óþekktir snillingarnir skvettu inn á kosningaskrifstofur Samfylkingar, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Óþekktir að sjálfsögðu því þeir voru ekki stoltari af sannfæringu sinni en svo að þeir duldust bak við grímur eins og fyrri daginn.

Nei, ekki þykir vinstri mönnum það ógeðfelldar aðferðir, heldur það að upplýsa kjósendur um hvað þeir raunverulega segja og vilja. Það að hækka skatta. En um leið á að lækka laun og fjölga störfum. Lái mér hver sem vill en ég sé ekki hvernig þetta á að geta gengið upp.

 

Skattahækkanir


Dómarar dæma samkvæmt lögum

Þá liggur fyrir sýknudómur í Hæstarétti í máli Gunnars Björnssonar. Nú vil ég strax taka sérstaklega fram að ég er ekki fylgismaður Gunnars, stóð að því á sínum tíma þegar ég var í Fríkirkjunni að honum var sagt upp sem presti. En málið er það að dómarar, hvort heldur í héraðsdómi eða við Hæstarétt eiga að dæma samkvæmt lögum. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur komast að þeirri niðurstöðu að hegðun sú, sem séra Gunnar framdi, sé ekki kynferðileg áreitni í skilningi laganna. Í því felst enginn siðferðislegur dómur yfir hvort Gunnar hafi hagað sér rétt og eðilega sem sóknarprestur, eða hvort stúlkurnar sem kærðu hann hafi verið trúverðugar eða ekki. Nei, dómurinn segir að samkvæmt gildandi lögum flokkist sú hegðun, sem hann sýndi, ekki undir kynferðislega áreitni. Og því er hann sýknaður.

Svo er það allt annar handleggur hvort svona hegðun sóknarprest sé viðeigandi manni í hans stöðu. Það er hins vegar ekki dómstóla að fjalla um heldur sóknarnefndar, sóknarbarna og svo sennilega á endanum Guðs sjálfs, sé hann til.

En gleymum því ekki að dómarar dæma samkvæmt lögum, ekki eftir því hvað einstakir þrýstihópar í samfélaginu telur að sé „rétt“ eður ei, eða eftir því hvað einstakir bloggarar eða greinahöfundar telja.

Og fyrir þá sem vilja kynna sér hvað dómur segir þá fylgir útdráttur hér á eftir en dóminn í heild sinni má nálgast á þessari slóð:

 „Ákærði mótmælir að háttsemi hans verði heimfærð undir brotalýsingu tilvitnaðra lagaákvæða í ákæru, auk þess sem ákvæði 199. gr. almennra hegningarlaga sé ekki nægilega skýrt til að því verði beitt vegna þessa. Með 8. gr. laga nr. 61/2007 var ákvæði um kynferðislega áreitni fært í 199. gr. almennra hegningarlaga en þar segir svo: „Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“ Í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsins, er varð að breytingarlögunum nr. 61/2007, kemur fram sú útskýring löggjafans að kynferðisleg áreitni sé háttsemi, kynferðislegs eðlis, sem teljist hvorki samræði né önnur kynferðismök. Felist hún í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Þá kemur þar meðal annars fram að ef um sé að ræða þukl eða káf innan klæða sé ekki nauðsynlegt að kynfæri eða brjóst séu snert til að háttsemin teljist kynferðisleg áreitni og geti þá þukl og káf annars staðar en á kynfærum og brjóstum þá einnig talist kynferðisleg áreitni.

Sú háttsemi ákærða, sem honum er gefin að sök, og sönnun er talin liggja fyrir um, lýtur að því að hann hafi faðmað umræddar stúlkur og jafnframt strokið annarri þeirra á baki, utan klæða, talandi um að honum liði illa, en einnig kysst hina á sitt hvora kinnina. Með hliðsjón af því sem á undan er rakið telur dómurinn að þessi háttsemi ákærða geti ekki talist kynferðislegt áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður ekki heldur fallist á með ákæruvaldi að ákærði hafi með þessari háttsemi sýnt stúlkunum yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, sært þær eða móðgað í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verður ákærði því sýknaður af báðum liðum ákæru“

 


mbl.is Sóknarprestur sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki henda mótmælaskiltunum!

Ég held svei mér þá að það væri bara fínt að fá áframhaldandi ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms Joð. Þegar ráðherrar eru uppteknari að því að reka mann og annan og banna vændi og nektardans en að rétta við þjóðarbúið, þá er ekki von á góðu. En samt held ég að það væri gott fyrir almenning að fá aftur að kynnast hreinræktaðri vinstri stjórn (var einhver að tala um skattahækkanir?). Og einnig bara gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera nokkur ár í stjórnarandstöðu, það var hollt fyrir flokkinn í Reykjavík og sama á nú við í landsmálunum. En mótmælendurnir ættu samt ekki að henda mótmælaskiltunum alveg strax, ástandið gæti nefnilega bráðum orðið þannig að þá væri fyrst rétt að hrópa „helvítis fokking, fokk!“.
mbl.is Samfylking og VG með samtals 55,8% - 38 þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er heilalaus fáviti og landráðamaður

Ekki veit ég hvort þeir, sem til mín þekkja, myndu taka undir þessa lýsingu á mér. En þetta eru lýsingaorðin sem notuð eru á blogginu um þá, sem geta hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn: „landráðamaður“, „styðji mannréttindabrot“, „heilalausir fávitar“.

Þá segir í einni athugasemd á einum stað að Sjálfstæðisflokkurinn sé „sértrúarsöfnuður spilltra veruleikafirrtra landráðamanna“ og að Sjálfstæðisflokkurinn skuli nú bjóða fram megi líkja við „að nasistaflokkurinn með Göring í fararbroddi hefði verið í framboði til þýska ríkisþingsins eftir stríðið“. Og ennfremur að það ætti að „banna Sjálfstæðisflokkinn með lögum“ enda sé hann „landráðaflokkur“.

Það er ótrúlegt hvað mörgum virðist vera fyrirmunað að geta skrifað bloggfærslur með málefnalegum rökum þar sem almennrar kurteisi er gætt. 

Í þessu sambandi bendi ég á góða bloggfærslu hjá Gísla Frey Valdórssyni, en hún fjallar einmitt um þennan skort á almennri kurteisi og röksemdafærslum í bloggskrifum í dag.


Nú vantar sameiningartáknið

Á tímum sem þessum væri gott að hafa forseta eins og Vigdísi Finnbogadóttur eða Kristján Eldjárn, forseta sem er hafinn yfir pólitískt dægurþras og er sannarlega sameiningartákn allra landsmanna. Forseta sem gæti stappað stálinu í almenning, hvar svo sem þeir annars standa í pólitík (eða eru bara ópólitískir eins og svo margir eru). Forseta, sem allir líta upp til og bera virðingu fyrir.

Það er stundum sagt að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. En síðustu 12 ár hafa sannarlega kennt okkur, að það er ekki síður erfitt að kenna gömlum stjórnmálaref að verða að sameiningartákni. 


mbl.is Tæpur þriðjungur ánægður með forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi kjúklingaréttur

Þessi kjúklingaréttur smakkast ótrúlega vel:

Heill kjúklingur, hlutaður í sundur og settur í eldfast mót
2 dl apríkósumarmelaði
100 gr púðursykur
50 gr smjör/smjörlíki (nota sjálfur alltaf smjör)
2 dl Hunts barbeque sósa
2½ dl rjómi
1 dl sojasósa

Smjörið brætt í potti og allt blandað saman (best að gera það í þessari röð: rjómi, bbq sósa, apríkósumarmelaði, sojasósa, púðursykur).
Hitað, en má ekki sjóða, kælið aðeins niður og hellið yfir kjúklingabitana.
Fatið sett neðst í ofninn og haft í 1-1½ klst eða þar til kjúklingurinn er soðinn í gegn.


Að fórna meiri hagsmunum fyrir minni

Jæja, það er þá byrjað að gerast sem við, sem höfum varað við hvalveiðum, höfum óttast að ákvörðun um hvalveiðar skaði viðskipti okkar erlendis og ferðaþjónustuna. Ég get verið fyllilega sammála þeim „prinsipp“ rökum að Íslendingar ættu að hafa leyfi til að nýta sér hvali eins og aðrar náttúruauðlindir í hafinu kringum landið. Og lítill munur sé á því að skjóta hval og slátra kindum eða kúm í sláturhúsi. Allt góð og gegn rök sem við höfum með því að stunda hvalveiðar. Það er bara einn hængur á; andstæðingar hvalveiða erlendis hlusta ekki á rök, það er álíka auðvelt að sannfæra þá um réttmæti hvalveiða og sannfæra Gunnar í Krossinum um réttmæti samkynhneigðar, hvorugur aðilinn hlustar á rök heldur er afstaða þeirra byggð á tilfinningum einum saman.

Hér fyrir neðan er viðtalið við Steingrím í heild sinni og einnig góð grein Ingiveigar Gunnarsdóttur, ferðamálafræðings og leiðsögumanns, um hvalveiðar.

Og hér má sjá fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar um hvalveiðarnar.

Storf_tapast

meiri_fyrir_minni.jpg


mbl.is Segir fjölda starfa tapast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma brúðkaupsafmælinu!

Svona til að slá einnig aðeins á létta strengi; það borgar sig greinilega ekki að gleyma brúðkaupsafmælinu (þess vegna kvæntist ég á afmælisdegi mínum, svo ég myndi örugglega ekki gleyma deginum!).

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband