Málfrelsi, skoðanafrelsi, tjáningafrelsi

Hinn skeleggi kollegi minn í leiðsögumannastéttinni, Lára Hanna Einarsdóttir, skrifaði um daginn færslu undir sama heiti um tjáningarfrelsið. Tilefni færslunnar var að starfsmaður Toyota á Íslandi hafði verið sagt upp störfum eftir að hafa gagnrýnt stjórn fyrirtækisins harkalega á bloggsíðu sinni. Í færslu Láru Hönnu, og í athugasemdum við hana, virtist koma fram sá algengi misskilningur að 73. grein stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi ætti að tryggja það að hver sem er gæti sagt hvað sem er án þess að það hefði afleiðingar í för með sér. Svo er þó ekki. Þessi grein stjórnarskrárinnar er sett til að tryggja að stjórnvöld geti ekki sett lög um ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsinu, eins og það er orðað. Þetta þýðir hins vegar ekki að fólk geti ekki þurft að axla ábyrgð á því sem það segir opinberlega, t.d. með málsókn eða því að vera sagt upp störfum. Maður, sem gagnrýnir fyrirtæki sitt opinberlega, getur átt það á hættu að vera sagt upp störfum, svo einfalt er það. Lára Hanna tiltekur nokkur dæmi þar sem fjölmiðlafólk hafði verið sagt upp störfum og ýjar að því að það hafi verið vegna skoðana þeirra, án þess að rökstyðja það neitt frekar. 

En ég þekki raunverulegt dæmi um að einstaklingur hafi verið útilokaður frá starfi hjá tilteknu fyrirtæki fyrir að setja fram skoðanir sínar opinberlega. Já, ég hef nefnilega lent í því sjálfur.

Árið 1993 ákvað þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavik að breyta Strætisvögnum Reykjavíkur (SVR) í hlutafélag. Þessi ákvörðun var vægast sagt umdeild og illa undirbúning og olli eðlilega mikilli óánægju meðal starfsmanna fyrirtækisins. Í borgarstjórnarkosningunum 1994 sameinuðust þáverandi minnihlutaflokkar í einu framboði í nafni R-listans. Eitt af aðalkosningamálum hans var að breyta SVR aftur í borgarfyrirtæki og taka upp „opin og lýðræðisleg vinnubrögð“, orð sem eru mjög töm mörgum á vinstri kantinum. R-listinn vann sigur í kosningunum og er engin vafi að þetta mál vó þungt í því sambandi.  Eitt af hans fyrstu verkum var svo að efna þetta loforð um að breyta SVR aftur í borgarfyrirtæki. En svo kom bara á daginn að alt tal um „opin og lýðræðisleg vinnubrögð“ hjá SVR reyndist vera orðin tóm og ítrekað var gengið framhjá óskum starfsmanna fyrirtækisins og nýtt fólk ráðið inn í nýjar stöður og gömlum starfsmönnum ýtt til hliðar.

Ég skrifaði því grein í Morgunblaðið í ágúst 1995 þar sem ég gagnrýndi ýmislegt í vinnubrögðum meirihluta stjórnar SVR. Þáverandi stjórnarformaður SVR reyndi að svara þessari grein minni hálf máttleysislega sem ég svaraði svo aftur. Margir fyrrum félaga minna hjá SVR sögðu mér að með þessu væri ég öruggur um að fá aldrei starf hjá fyrirtækinu aftur. Og það reyndist vera rétt. Að loknu námi í Bandaríkjunum kom ég heim og vantaði tímabundið vinnu meðan að ég væri að finna mér starf við hæfi minnar menntunar. Ég ákvað að prófa að sækja um hjá SVR, vissi að þeim vantaði vagnstjóra, og láta á það reyna hvort þetta væri rétt, að ég fengi ekki vinnu út af þessum greinum sem ég hafði skrifað.

Og til að gera langa sögu stutta þá reyndist það vera rétt. Mér var tjáð að það mætti ekki ráða mig sem vagnstjóra hjá SVR vegna þessara greina sem ég hafði skrifað. Og þetta ráðningabann stóð þar til að SVR rann inn í Strætó bs. og skipt var um yfirmenn.

Ég nýtti mér því tjáningarfrelsið, sem stjórnarskráin veitir, til að tjá skoðanir mínar. Ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að þetta gæti haft ákveðnar afleiðingar í för með sér, sem og það gerði. Og ég tók þeim afleiðingum án þess að kvarta og kveina. Og án þess að væla yfir ritskoðun eða höftum á skoðanafrelsi. Ég var tilbúinn til að taka afleiðingum þess að tjá skoðanir mínar. Og það af hendi fólks sem hæst talaði þá um málfrelsi og um „opin og lýðræðisleg vinnubrögð“. 

Þessa daga finnst mér ég oft vera kominn 14-15 ár aftur í tímann. Nú er aftur talað fjálglega um „lýðræði“, „gagnsæi“ og „opin“ vinnubrögð. En þegar komið er í valdastólana er byrjað á því að ýta til hliðar fólki, sem ekki er þeim sömu þóknanlegt. Og „sitt fólk“ sett í staðinn. En alt er þetta svo „opið, lýðræðislegt og gagnsætt“, ekki satt? 

Ég hef það einhvern veginn svo sterklega á tilfinningunni að aftur eigi þetta að reynast merkingalaust blaður, blaður sem ótrúlega margir eigi eftir að falla fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband