Varaforsetaefni McCain?

McCain var víst eitthvað að hnýta í Castro um daginn. Ég fann þessa mynd á netinu, en hana gerði Mike Peters sem bæði semur teiknimyndasöguna Mother Goose and Grimm (sem er í Mogganum undir nafninu Gæsamamma og Grímur) og teiknar einnig beittar skopmyndir (editioral cartoons).

untitled


Veit Dagur ekki betur?

Maður mætti ætla að kjörnir fulltrúar í sveitastjórnum þekki lög og reglur um kosningar til sveitastjórna. Í lögum um kosningar til sveitarstjórna segir að kjörtímabil sveitastjórna sé fjögur ár og ekki er gert ráð fyrir þeim möguleika að efna til kosninga innan þess tíma. Því eru ummæli Dags óskiljanleg. Annað hvort þekkir hann lögin ekki betur (sem væri afskaplega alvarlegt mál) eða þá að hér er um hreina óskhyggju að ræða. Það ætti að vera hægt að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir hagi málflutningi sínum með þeim hætti að þeir tali um hvernig hlutirnir eru í raun og veru, ekki hvernig þeim finnst að þeir ættu að vera. Sá möguleiki, að efna til kosninga til borgarstjórnar í Reykjavík, er einfaldlega ekki til staðar. Alveg óháð því hvaða skoðun maður hefur á myndun þessa meirihluta eða annars. Það vill gleymast í þessari umræðu að það er ekkert nýtt að meirihluti í sveitarstjórn falli og að nýr sé myndaður. Þó það hafi ekki gerst áður í Reykjavík hefur það gerst í öðrum sveitarfélögum í sögunni. Jafnvel þannig að kjörnir fulltrúar hafi skipt um flokk á miðju kjörtímabili. En eins og svo margt í umræðunni þessa daga vill þetta gleymast í öllum hamaganginum.


mbl.is Dagur: Í dag ætti að kjósa í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál, þroski og lýðræði.

Það var áhugavert að sjá fréttir af borgarstjórnarfundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Fjöldi ungs fólks var þar samankomin til að tjá ást sína á lýðræðinu með hófstilltum, málefnalegum og rökfastum málflutningi. Jafnvel þótt framkoma ungmennanna hafi á köflum frekar minnt mig á Gettu betur eða Morfís fór ekki fram hjá neinum að hér voru sannir lýðræðissinnar á ferð. Hópurinn passaði einsaklega vel upp á að halda fundarsköp og að leyfa öllum að tjá sig truflunarlaust, enda byggist lýðræði á því að gefa fólki tækifæri á að tjá sig. Og þessi hófstillta og málefnalega framkoma þeirra kristallaðist einkum í orðunum: „Þú ert enginn "fokkings" borgarstjóri.“ Jafn rökfastan og málefnalegan málflutning hef ég ekki heyrt í langan tíma. Það er náttúrulega engin spurning að það verður að fá þennan dreng, sem lét þessi orð falla, til forystu í stjórnmálum! Miðað við framkomu hans í dag er hér greinilega á ferð framtíðar leiðtogaefni og bara spurning hvort það verði hjá VG eða Samfylkingunni.
mbl.is Segja atburðina í Ráðhúsinu sögulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærur og kosningar

Ýmislegt hefur verið  sagt og skrifað um ummæli Þórunnar Guðmundsdóttur um mögulegt framboð Ástþórs Magnússonar og kæru hans í kjölfarið. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið hissa á kæru hans og því að birta hana í dagblaði, annað eins hefur maðurinn afrekað hingað til. Á einni bloggsíðu fann ég færslu þar sem notaðar voru lýsingar eins og: „hér gengur ekki heil manneskja til skógar“, „veruleikafirrt“, „hrokafullt“, „bara ekki heil á geði“. Var viðkomandi bloggari að skrifa um Ástþór Magnússon? Ónei, þessar lýsingar notaði hann um Þórunni! Já, svona geta sumir verið öfugsnúnir í tilverunni.

Annars væri ég ekkert ósáttur við að Ástþór næði að bjóða sig fram í sumar, þá væri Ólafur Ragnar að minnsta kosti ekki sjálfkjörinn og maður hefði aftur tækifæri til að mæta á kjörstað til að skila auðu (en Nota Bene; það er leið okkar, sem erum ekki sátt við ÓRG, til að koma þeirri afstöðu okkar á framfæri).


„To Boldly Go ...“

Var að horfa á Star Trek: The Wrath of Khannú um helgina en þetta er að mínu mati með betri Star Trek myndunum. Fann myndina á VHS spólu í Kolaportinu um daginn og held að hún hafi kostað 2-300 krónur. Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt varðandi Star Trek og nú fyrr í vetur sagði einn samstarfsmaður minn, sem er bandarískur að uppruna, að setningin fræga „To Boldly Go” væri strangt til tekið málfræðilega röng í ensku. Réttara væri að segja „To Go Boldly“, þ.e. ekki mætti setja lýsingarorð á milli nafnháttarmerkisins og sagnorðsins. Sagði hann einnig að Gene Roddenberry, höfundur Star Trek, hafi verið harðlega gagnrýndur á sínum tíma af enskufræðingum. Roddenberry var að mörgu leyti byltingarmaður á sínum tíma og er þetta bara eitt dæmi um hvernig hann ögraði viðurkenndum staðreyndum þess tíma svo sem með því að hafa meðal aðalsöguhetja Rússa, svarta konu og Japana. Það er því kannski ekki tilviljun að í þessari mynd eru tveir samkynhneigðir karlmenn meðal aðalleikara; þeir George Takei og Paul Winfield.

Já, því ekki að hafa jólin í janúar?

herman20080112223505

Titanic hin oflofaða

Ég sleppti því þessi jólin að fara í bæinn á Þorláksmessukvöld, hreinlega nennti því ekki í kuldanum. Horfði á síðari hlutann af myndinni Titanic eftir James Cameron, en ég sá þessa mynd upprunalega í kvikmyndahúsi þegar ég bjó í Bandaríkjunum. James Cameron hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér sem leikstjóri og á hann 3 myndir inn á topp listanum, sem ég er að setja saman um mínar uppáhaldsmyndir þ.e. Terminator, Terminator-2 og Aliens. Ég skal alveg viðurkenna að ég var með hálfgerðan kökk í hálsinum í lokin á myndinni þegar ég sá hana á sínum tíma. En fannst þó þá og finnst enn að hún sé alltof oflofuð. Framan af er myndin allt of langdregin og ástarsamband Jack og Rose allt of fyrirferðarmikið. En þegar skipið rekst á ísjakann fer myndin loks að hrökkva í gang og á lokamínútum hennar sýnir Cameron hvað hann getur (gat?) þegar skipið er að sökkva. Samt truflaði það mig alltaf og gerir enn eltingaleikur Billi Zane og David Warner við skötuhjúin þegar skipið er við það að sökkva, mætti halda að menn væru með hugann við annað á sökkvandi skipi.

En hvernig Cameron endurgerir síðustu mínútur skipsins sýnir hvers hann er megnugur og sagan segir að áhættuleikararnir hafi vel unnið fyrir kaupinu sínu. Samt dettur hann of oft í væmnina svo sem í atriðinu þegar móðirin er að segja börnum sínum ævintýri í káetunni (en móðirin er leikin af Jenette Goldstein, en hún sýndi snilldartaka á sínum tíma í hlutverki sínu sem Vasquez í Aliens). Er ein slakasta mynd Cameron og ótrúlegt að hún hafi hlotið 11 Óskarsverðlaun á sínum tíma.


Í upphafi

Jæja, þá hefur maður loksins látið verða af því að stofna bloggsíðu. Það sem endanlega rak mig rólegheitamanninn út í þetta var að ég varð að hneykslast yfir því að engar strætóferðir verða á Jóladag að þessu sinni.  Ég held alltaf að sem gamall strætóbílstjóri hafi ég rétt á að tjá mig um þessi mál, þó svo að reynsla mín af því sé svo sem ekki góð. Einu sinni í gamla daga var ég nefnilega settur á svartan lista hjá þáverandi stjórn SVR (eins og fyrirtækið hét þá) fyrir að skrifa um málefni þess í Moggann (held að það sé enn hægt að finna þessar greinar í greinasafni Moggans). Já, af öllu því sem er hægt er að taka var það þetta sem gerði útslagið. En fyrst að ég er búinn að láta verða af þessu mun ég nú eftir hátíðina fara að setja hér inn ýmsar hugleiðingar mínar um hitt og þetta s.s. stjórnmál, tónlist, kvikmyndir, ferðaþjónustu og annað það sem ég hef áhuga á.

Allir heima á Jóladag?

Það er kannski full mikið sagt að allir eigi að vera heima á Jóladag en hætt er við að sumir lendi í því að komast ekki á milli staða þennan helga dag þar sem nú hefur Strætó bs. ákveðið að engar strætóferðir verði á Jóladag. Ég man satt best að segja ekki eftir því að slíkt hafi gerst í manna minnum, en nú skal víst verða af því. Ég skal játa að strætó hefur svo sem aldrei verið pakkaður af fólki þennan dag en þó alltaf töluvert af fólki sem hefur treyst á strætósamgöngur til að komast á milli staða. Já, sennilega flestir sem ekki eiga bíl. En nú á þetta fólk víst að treysta á aðra samgönguleiðir á þessum helgasta degi ársins. Hvað á það eiginleg að gera? Taka leigubíl á uppsprengdum taxta? Ganga? Mér segir svo hugur að þeir, sem alla jafna taka strætó, hafa fæstir hverjir efni á að taka leigubíl á virkum degi, hvað þá á helgidegi. Þetta er endanleg sönnun á að sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu hafa endanlega gefist upp á að halda hér uppi almennilegum almenningssamgöngum.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband