Mæltu manna heillastur

Í því upplausnarástandi, sem ríkt hefur í vetur, hafa stundum sprottið fram slagorð og fullyrðingar um að rætur efnahagshrunsins séu að finna í uppbyggingu stjórnmála- og stjórnkerfisins á Íslandi. Flestar þessar fullyrðingar hafa verið lítt studdar rökum, þannig fullyrti einn mælandi í Silfri Egils í vetur að koma hefði mátt í veg fyrir hrunið ef stórkerfið hefði verið öðruvísi, þ.e. ef hér hefði verið skarpari skil á milli framkvæmda- og löggjafarvalds eins og t.d. í Bandaríkjunum. Viðmælandi Egils láðist hins vegar alveg að rökstyðja það frekar og Egill fylgdi því ekki eftir að maðurinn kæmi með rök fyrir þessu. Eitt af þeim slagorðum sem hæst hafa glumið er um hið svo kallaða „stjórnlagaþing“. Fylgjendur þess leggja ofuráherslu á að breyta Stjórnarskrá Íslands og það sem fyrst. Kjósa á sérstakt stjórnlagaþing sem geti með einföldum meirihluta gert grundvallarbreytingar á stjórnskipun landsins. Og eins og fyrri daginn stukku vinstri flokkarnir til eftir þeim sem hæst höfðu og tóku málið upp á Alþingi.

Það geta held ég flestir verið sammála um að það megi breyta ýmsu í stjórnarskránni. Slíkar breytingar hafa fram að þessu verið gerðar í fullri sátt allra flokka á Alþingi. Nú á síðasta þingi átti að keyra í gegn breytingar í óþökk Sjálfstæðisflokksins, sem taldi að um slíkar breytingar ætti að ríkja almenn sátt og slíkar breytingar ættu að vera hafnar yfir daglegt pólitískt dægurþras. Og að stjórnarskráin væri slíkt plagg að ekki ætti að gera hana að pólitísku deilumáli.

Í Morgunblaðinu síðasta sunnudag birtist grein eftir Atla Harðarson heimspeking þar sem hann fjallar mjög vel og málefnalega um hvernig það á einmitt að vera mjög erfitt að breyta stjórnarskránni og að til að breyta stjórnarskrá ætti að þurfa aukinn meirihluta atkvæða, ekki bara einfaldan meirihluta. Ef einfaldur meirihluti á að nægja til að breyta stjórnarskrá og ef stjórnarskrárbreytingar eru keyrðar í gegn af ríkjandi meirihluta hverju sinni, hættir stjórnarskráin að virka sem slík og verður hluti af hinu pólitíska dægurþrasi. Slíkt ber að forðast.

Það breytir hins vegar ekki því að við þurfum alltaf að hafa lifandi og opna umræðu um stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins og vissulega að ræða ítarlega mögulega breytingar. En allar slíkar breytingar þurfa að vera í góðri sátt sem flestra og einnig er nauðsynlegt að flana ekki að grundvallaruppstokkun. Þrátt fyrir að þingræðisreglan, sem ríkt hefur á Íslandi í 105 ár (síðan að Heimastjórn komst á 1904), sé langt í frá gallalaus, þá er ekki þar með sagt að það sé eitthvað fullkomnara kerfi að hafa algeran aðskilnað á milli löggjafar- og framkvæmdavalds (líkt og í Bandaríkjunum), slík kerfi hafa líka ýmsa ókosti í för með sér. 

Hitt er svo annað mál, að það virðist litlar líkur á að slíkar róttækar breytingar verði á næstunni þar sem afsprengi „búsáhaldarbyltingarinnar“ virðist ekki ganga neitt sérstaklega vel með að ná til „þjóðarinnar“, þeirri sömu þjóð og þeir töldu sig tala fyrir.

 Atli


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband