Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað með ráðuneytisstjórastöðuna?

Ásmundur Stefánsson er sennilega sá maður á Íslandi sem hefur hvað mesta reynslu og sérfræðiþekkingu af bankamálum. Hann hefur orð á sér að vera heiðarlegur og traustur maður sem lætur málefnaleg rök ráða afstöðu sinni. Nú hefur bankaráð Landbankans óskað eftir því að hann sinni starfi bankastjóra tímabundið fram á haust. Steingrímur Joð vill að ekki verði beðið með að auglýsa og ráða nýjan bankastjóra.

Í gær setti sami Steingrímur Joð, Indriða Hauk Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóra með meiru, tímabundið sem ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Indriði er með gífurlega þekkingu og reynslu sem embættismaður hjá hinu opinbera. Hann er jafnframt af þeim sem þekkja til (og ég er þar á meðal) talinn búa yfir sömu mannkostum og Ásmundur Stefánsson.

Hver er eiginlega munurinn á þessu tvennu?  Enginn, í báðum tilfellum er verið að leita til hæfra manna til að taka að sér erfitt starf til skamms tíma. Annað hvort á að auglýsa bæði störfin strax og ráða í þau strax. Eða leyfa þeim, sem best telja, að ráða hæfasta aðilann þar til tími gefst til að auglýsa stöðuna og ráða nýja manneskju.

Eini munurinn er að annar gjörningurinn þóknast Steingrími Joð, hinum ekki.

 


mbl.is Auglýsi stöðuna sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað með störf sem tapast í staðin?

Helstu rök hvalveiðisinna eru að með því að leyfa hvalveiðar skapist ný störf, eða um 200-300 störf. Vel má vera að það sér rétt en hvað með þau störf í ferðaþjónustu sem gætu tapast á móti? Við, sem störfum í ferðaþjónustu, vitum vel að hvalveiðar og ferðaþjónusta (og þá er ég ekki bara að tala um hvalaskoðun), fara illa saman. Þó svo að mitt fyrirtæki sé bara smáfiskur í bransanum rigndi yfir mig á tímabili tölvupóstur með mótmælum gegn hvalveiðum. Árið 2006 voru gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu tæp 13% af útfluttum vörum og þjónustu, næst á eftir sjávarútvegi og stóriðju. Og ferðaþjónusta og tekjur af henni ætti að geta aukist á næstu mánuðum og árum ef rétt er haldið á spilunum. En hvalveiðar eru ekki gott útspil í því sambandi og til lítils að skapa störf í kringum hvalveiðar ef störf og tekjur í ferðaþjónustu minnka að sama skapi.

Og á sama tíma og mikið er talað um að hlusta eigi á hagsmunaðila í sjávarútvegi er fussað og sveiað yfir sjónarmiðum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og jafnvel látið að því liggja að hvalaskoðunarfyrirtæki fái greiðslur frá hvalaverndunarsamtökum til að halda uppi gagnrýni á hvalveiðar. Já, hún er ekki alltaf sem málefnalegust umræðan í þjóðfélaginu.


mbl.is 200 störf slegin út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að axla ábyrgð eða hlaupast undan henni?

Óhætt er að segja að frétt dagsins sé afsögn Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra. Viðbrögð fólks hafa verið nær á einn veg; að hér hafi hann loksins „axlað ábyrgð“ á ástandinu, helst þó full seint. En hvað er að axla ábyrgð? Hvernig axla ráðherrar ábyrgð eins og staðan er í dag? Íslendingar standa frammi fyrir stærri vandamálum í efnahagsmálum en í háa herrans tíð. Núverandi ríkisstjórn er að standa í viðamiklum bjögunaraðgerðum í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Sjaldan hefur nokkur ríkisstjórn unnið undir jafn miklu álagi og ráðherrar og aðrir þingmenn setið undir gífurlegu áreiti fjölmiðla og almennings. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa nú viðurkennt og samþykkt að boða þurfi til kosninga í vor. Þá verða verk þessarar ríkisstjórnar, þar með talið það sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum, lögð undir dóm kjósenda og allt stefnir í að sá dómur verði þungur. Björgvin G. Sigurðsson hefur nú ákveðið að stökkva frá borði og stuðla því frekar að því að ríkisstjórnin springi og hér verði stjórnarkreppa fram að kosningum (nei, það verður flóknara en margur heldur að mynda hér starfhæfa ríkisstjórn fram að kosningum) og jafnvel vel fram yfir kosningar (en um möguleikann á stjórnakreppu eftir kosningar fjalla ég betur um í annarri færslu). Því hefur hann að mínu mati ekki axlað neina ábyrgð, hann hefur frekar hlaupist undan þeirri ábyrgð að hafa hér starfhæfa ríkisstjórn fram að kosningum.

Aðdáunarvert langlundargeð lögreglunnar

Í öllum þeim hamagangi sem gengið hefur á í vetur hef ég dáðst að þolinmæði og langlundargeði lögreglunnar gagnvart mótmælendum. Og síðustu daga hef ég sérstaklega dáðst að þessu þar sem lögreglumenn hafa þurft að sitja (eða frekar standa) undir margs konar sendingum frá mótmælendum, bæði af munnlegum og áþreifanlegum toga. Þrátt fyrir það hafa þeir haldið ró sinni og látið ótrúlegustu hluti yfir sig ganga. Lögreglumenn eru langt frá því einsleitur hópur, frekar en aðrar stéttir manna s.s. leiðsögumenn eða kennarar (stéttir sem ég tilheyri), og margir þeirra eru vafalaust í hjarta sínu sammála mörgu því sem mótmælendur hafa haldið fram. En þeir hafa á síðustu dögum sýnt einstaka fagmennsku og þolinmæði. Fyrir það eiga þeir lof skilið. Því í mörgum öðrum lýðræðisríkjum væri mun harkalegar tekið á fólki, sem hefur frammi þá hegðun sem við höfum orðið vitni að.

Yrði ástandið virkilega eitthvað betra?

Á meðan að formaður Samfylkingarinnar er erlendis í læknismeðferð lúffar Samfylkingarfólk í Reykjavík fyrir háreisti mótmælenda. Það er auðvelt að vera í ríkisstjórn þegar vel gengur í þjóðfélaginu og í efnahagsmálum. Það reynir hins vegar fyrst á kjark stjórnmálamanna og dug þegar illa gengur og öll spjót standa að þeim. Þá skiptir miklu að halda haus og haga sér ekki eins og vindahanar eftir því hvernig blæs hverju sinni og eftir því hverjir hafa hæst (sem eru ekki endilega þeir sem njóta mest fylgis). Þeir sem gala nú hæst um „byltingu“ og að þeir tali í nafni þjóðarinnar munu efalaust fagna hressilega verði þessu ríkisstjórnarsamstarfi slitið og boðað til nýrra kosninga.

Og kannski væri þá best fyrir þá að fá hér stjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar, já og væntanlega yrðu Framsóknarmenn að koma þar inn líka, nýbúnir að hvítþvo sig af syndum fortíðar. Steingrímur Joð sem forsætisráðherra, Ögmundur sem fjármálaráðherra, Kolbrún Halldórs sem dómsmálaráðherra (eða kannski Álfheiði Inga frekar, hún væri „kúl“ sem yfirmaður lögreglunnar enda með rétta „attitjúdið“!). Það væri nú ríkisstjórn í lagi!

Nei, ég held nefnilega að þá myndu mótmælendur fljótt komast að því að þá fyrst væri ástandið orðið „helvítis fokking fokk“.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega bara sumir vera reiðir?

Það er svolítið kúnstugt að fylgjast með því þessa daga hvernig þeir, sem hæst hafa talað um rétt fólks til að vera reitt, hneykslast nú á að tveir bræður hafi sýnt reiði gagnvart mótmælendum á Gamlársdag. Sama fólk og hefur varið lætin á borgarstjórnarfundinum, þegar fúkyrðum var ausið yfir Ólaf F og félaga, eggjakast í Alþingishúsið og jafnvel lætin við Lögreglustöðina, allt í nafni lýðræðis og málfrelsis, skrifar nú arfahneykslaðar bloggfærslur gegn þessum tveimur mönnum. Jafnvel er ýjað að því að segja ætti mönnum þessum upp störfum og lítið gert úr þroskastigi þeirra, líkt og sjá má í þessari bloggfærslu.

Samkvæmt þessu er í fínu lagi að vera öskureiður út í Davíð, Geir, Ingibjörgu, Jón Ásgeir, Björgólfsfeðga, Bjarna Ármanns og guð má vita hverja. Og ekkert að því að sýna þá reiði með öskrum, köllum, eggjakasti, bumbuslætti, berjandi rúður og þaðan af verra. Já, og það er greinilega í fínu lagi að hrópa að Ólafi F að hann sé „enginn fokkings borgarstjóri“. En þegar menn reiðast mótmælendum og láta það í ljós gagnvart þeim m.a. með því kalla þá „kommúnistadrullusokka“, þá ná þeir sömu ekki upp á nefið á sér fyrir reiði og hneykslun. 

Nei, það er greinilega ekki það sama að vera mótmælandi eða mótmælandi mótmælenda!


Börn eiga að fá að vera börn

Þó svo að málflutningur ræðumanna á þessum fundum hafi á köflum verið æði barnalegir, sbr. málflutning laganemans sem ég hef gagnrýnt áður á þessu bloggi, hlýtur það að vera nýtt að tefla fram 8 ára barni sem ræðumanni.  Ég get tekið undir það að hér er á ferðinni skemmtilegt barn og skörulegt og vera má að hún sé afar sjálfstæður einstaklingur, eins og haldið er fram hér, en málflutningur hennar ber þess augljóslega merki að hér er barn á ferðinni. Til dæmis eru fullyrðingar hennar um að Alþingismenn séu „alltaf í fríi“ fjarri lagi raunveruleikanum (sennilega er sjaldfundnari stétt fólks sem fær minna frí en einmitt stjórnmálamenn), þó að þetta hafi fallið vel í kramið hjá áheyrendum. En kannski lýsir það bara mótmælunum í hnotskurn; innantómar staðhæfingar sem hljóma vel í eyrum.

Og í guðanna bænum leyfið börnum að vera börnum áfram, ekki tefla þeim fram í pólitískum hráskinnaleik. 


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðisást mótmælenda

Það hefur verið fastur liður hjá mér á Gamlársdag að fylgjast með Kryddsíldinni á Stöð 2. Og í dag var ætlunin að hafa sama háttinn á og var með kveikt á
sjónvarpinu á meðan ég var að undirbúa steikina fyrir kvöldið.  Í þessum þætti, sem löng hefð er komin á, mætast formenn stjórnmálaflokkanna til að gera upp árið og í ár var
virkilega spennandi þáttur framundan þar sem búast mátti við snörpum
orðaskiptum þeirra á milli. Og sérstaklega var beðið eftir að forsætisráðherra kæmi í hús því þá mátti búast við föstum skotum frá Steingrími joð og jafnvel Guðjóni Arnari. En hvað gerist? Fámennur hópur mótmælenda mætir á staðinn og reynir allt hvað hann getur til að trufla umræðurnar og vinnur svo slík spjöll á tæknibúnaði Stöðvar 2 að það þurfti að hætta þættinum. Fólk, sem hæst galar um lýðræði, sá til þess að þorri þjóðarinnar missti af því tækifæri að sjá formenn stjórnmálaflokkanna takast á um málin á lýðræðislegan hátt. Vafalaust eiga þó nokkrir eftir að verja þessar aðgerðir og eflaust verður nornin þar fremst í flokki. En ég held að flestir Íslendingar séu farnir að átta sig á að þetta fólk talar alls ekki í nafni þjóðarinnar. Og lýðræðissinnar eru það svo sannarlega ekki, það sannaði það svo rækilega í dag.
mbl.is Lögreglumaður kinnbeinsbrotinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er kreppan?

Hvar er kreppan? spyr Ásgeir Hvítaskáld í grein í Morgunblaðinu 28. nóvember sl. Ég held ég geti tekið undir mikið af því sem hann bendir á og hvet alla til að lesa þessa grein.

 asgeir_hvitaskald_740782.jpg


Gott að vita að fleiri en ég eru á sama máli

Um daginn bloggaði ég um mótmælin á Austurvelli. Þar benti ég m.a. á að laganeminn, Katrín Oddsdóttir að nafni, hafi í ræðu sinni opinberað skelfilega vanþekkingu á Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og almenna vanþekkingu á eðli íslenskrar stjórnsýslu og stjórnmálum. Og að eina svar hennar væri að boða einhvers konar byltingu.

Samnemendur hennar í lagadeild HR skrifuðu góða grein í Morgunblaðið þann 27. nóvember sl. þar sem þeir réttilega benda á galla á málflutningi hennar. Sumir virðast leggja meiri áherslu á að ræða hennar hafir verið skörulega flutt eins og má sjá á þessari bloggfærslu. Ég sjálfur tel að innihald skipti meira máli og innihaldslega var ræða hennar hvorki fugl né fiskur. Og það hlýtur að vera hægt að gera þá eðlilegu kröfu að þeir sem leggja stund á lögfræði sýni lágmarks skilning á viðeigandi lögum þegar þeir tjá sig opinberlega. Hitt er svo annað mál að hún á að hafa fullt málfrelsi og HR má vitna í hana sem nemanda við skólann eins og aðra. Svo er það annað mál hversu góður fulltrúi nemenda við HR hún er.

Grein um Katrínu Oddsdóttur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband