Færsluflokkur: Menntun og skóli

Óður til kennslumanns

Fyrir nokkrum vikum síðan var orðið ljóst að ég myndi ekki halda áfram kennslu í Vogaskóla næsta vetur. Nokkrum dögum eftir að ég lét nemendur mína vita af þessu tók ég eftir umslagi á borðinu mínu í stofunni minni. Í umslaginu var eftirfarandi óður, skrifaður undir dulnefni:

Jæja...
Þegar sólin rís og máninn sest,
fær skólinn okkar lítinn gest.
Hann kemur inn og krakkar sig hneigja,
hann er sem Guð til ungra peyja.
Gengur inn í kennslustofu,
tekur upp Topp, tilbúinn til orrustu.
Byrjar sitt mál á orðinu „Jæja“
krakkarnir elska þennan gæja.
Glaumur og gleði fara um hans orð
er hann kennir okkur um þjóðarmorð.
Hann er líkt og kóngur meðal manna,
nei, hann þarf það sko ekki að sanna.

Svo komust við að þeirri raun
að hann væri að fara á betri  laun.
Tár runnu niðurkinnar barna,
frá óþekktarormum til lítilla skarna.
Hann sagði „Þett' er ei ykkar sök“
og færði fyrir því mög góð rök.

Jens, þú snertir okkur öll.
Þín góðmennska flytur fjöll.
Ef Þorbjörg leifir ei iPod í tíma
tökum við upp okkar síma.
Segjum: Þorbjörg, gefðu okkur séns!
Ef hún neitar, hringjum við í JENS!

Hann er maður, betri en aðrir menn,
veitir okkur kennslu, en
annars staðar byrjar að kenna
eftir sumarfrí er byrjar að fenna.

Ég verð að viðurkenna að ég varð hálf klökkur við að lesa þetta. Undirskriftin var dulnefnin Hicks og Ripley, sem eru að sjálfsögðu aðalsöguhetjurnar í hinni fantagóðu kvikmynd Aliens (þau eru leikin af Michael Biehn og Sigourney Weaver). Þetta beindi grun mínum að strák einum í umsjónarbekknum mínum, sem er mikill kvikmyndaáhugamaður og hafði rætt stundum við mig um kvikmyndir og viðurkenndi hann að hann hefði samið þetta ásamt öðrum strák í bekknum. Mér finnst alveg frábært að 15 ára unglingsstrákar semji svona nokkuð um kennarann sinn. Og gladdi þetta mig meira en fréttir af nýjum kjarasamningi grunnskólakennara. 

Og hér er svo mynd af bekknum mínum síðastliðinn vetur:

bekkur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband