Ökuleiðsögumenn óánægðir

Skrifað var undir nýja kjarasamning Félags leiðsögumanna og SAF (Samtök atvinnurekenda í ferðaþjónustu) síðasta fimmtudag. Viðræður eru búnar að vera í gangi í nokkurn tíma og bar víst mikið á milli að því að manni hefur skilist. Nú má alltaf deila um hvort hækkanirnar, sem samningurinn felur í sér, eru nægilegar eður ei. Ökuleiðsögumenn í Félagi ökuleiðsögumanna eru sérstaklega óánægðir með að ekki tókst að fella niður grein 2.5.2 um ökuleiðsögn. Þessi grein kom víst inn í samninginn fyrir nokkrum árum og hljóðar svo í dag:

Sé leiðsögumaður ráðinn til ökuleiðsagnar þá skal greiða 50% álag á tímakaup fyrir ökuleiðsögn í langferðarbifreiðum sem taka fleiri en 9 farþega“

Í nýja samningum er talað um 7 farþega í stað 9 og að frá og með 1. janúar 2010 verði miðað við 6 farþega eða fleiri. Formaður Félags ökuleiðsögumanna segir í viðtali á heimasíðu Félags leiðsögumanna að þeir muni örugglega greiða atkvæði á móti þessum samningi þar sem ekki hafi fengist leiðrétting á þessu ákvæði. Auk þess telur hann hækkanirnar vera of litlar og samið hafi verið til of langs tíma. Nú get ég alveg verið sammála honum um að ekki eru þetta neinar stórkostlegar hækkanir á launum sem eru að finna í þessum samningi. En þá verð ég að minna á að kjarasamningar eru í eðli sínu samningar um lágmarkslaun, ekkert bannar það að semja við ferðaskrifstofur um hærri laun en samningurinn kveður á um. Sjálfur ákvað ég þegar ég útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum fyrir ári síðan að ég ætlaði eingöngu að vinna skv. efsta flokki (þeir eru 4), en í raun og veru eiga leiðsögumenn að raðast í flokka skv. starfsreynslu. Ég fékk boð frá nokkrum aðilum að vinna skv. 2. eða 3. flokki en ég ákvað hreinlega að taka þeirri vinnu ekki. Mér tókst að fá vinnu meira og minna allt sumarið og allt greitt skv. 4. flokki. Þá vann ég nokkuð við ökuleiðsögn og í öllum tilfellum rukkaði ég 50% álag óháð fjölda farþega. Í eitt skiptið var ég með 3 farþega í nokkra daga, hjón frá Argentínu með 8 ára dóttur sinni. Ég rukkaði 50% álag og fékk það greitt þegjandi  og hljóðalaust. Og ég hef einfaldlega þá reglu að ég vinn ekki sem ökuleiðsögumaður nema ég fái greitt 50% álag, óháð fjölda farþega. Og dæmið er einfalt: Ef allir ökuleiðsögumenn eru harðir á þessu fá þær ferðaskrifstofur, sem ekki vilja greiða 50% álag fyrir 7 eða færri farþega, engan til að vinna fyrir sig við ökuleiðsögn og neyðast því til leigja bíl með bílstjóra auk leiðsögumanns. Og þurfa því að greiða tvenn laun, bílstjóra og leiðsögumanns, í stað þess að greiða 1,5 laun leiðsögumanns. Ráð mitt til félagsmanna í Félagi ökuleiðsögumanna er því þetta: Að hætta að velta sér upp úr þessu, þið vinnið ekki sem ökuleiðsögumenn nema þið fáið greitt 50% álag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Mér finnst að það eigi að banna ökuleiðsögn.  Það er bannað að tala í síma meðan verið er að keyra sama á að gilda um ökuleiðsögn þar sem Leiðsögumaður er að benda í allar áttir meðan á akstri stendur.  Ef menn vilja endilega keyra og leiðseigja þá á hámark farþega að vera 10 manns.

Þórður Ingi Bjarnason, 2.6.2008 kl. 07:01

2 Smámynd: Hallgrímur Egilsson

Vinnuru sem launþegi eða verktaki...? Þú tapar miklu ef þú ert verktaki á þessum launum...

Hallgrímur Egilsson, 5.6.2008 kl. 19:31

3 identicon

Ég held að vandamálið varðandi launakjör leiðsögumanna og ökuleiðsögumanna hljóti að vera sú staðreynd að all flestir hafa þessi störf sem aukavinnu. Þetta er þó að bretytast og æ fleiri reyna að starfa við þetta allt árið og eingöngu. En meðan megin þorri leiðsögumanna starfar við leiðsögn í "fríinu" sínu verða launakjörin í samræmi við það.

Hvað varðar takmörkun á fjölda farþega ökuleiðsögumanna og hvort ökuleiðsögn trufli aksturinn er það mín reynsla að eftir því sem hópurinn er stærri og þar með bíllinn er stærri verður leiðsöguhluti vinnunnar léttari. Þetta veldur líklegast tvennt. Annarsvegar hönnun bílanna þar sem ökumaður stærri bíla situr fjær farþegunum og er því einangraðri. En hins vegar að í stærri hóp er ólíklegra að einhver einn eða fleiri reyni að halda uppi einkasamræðum við ökumannin / leiðsögumannin. Þannig t.d. hef ég farið með 3ja manna hóp og þurft að aka og leiðsegja. Verður þá leiðsögnin meira í samtalsformi og er því mjög krefjandi. Á móti leiðsögn með stóran hóp þar sem ég fer að mestu með æfða rullu og fæ meiri frið fyrir gestunum nema ef ég gef kost á viðbrögðum eða svari við spurningu.

Stærsta vandamálið við ökuleiðsögn er hópstjórnarhlutin. Sami maðurinn er að senda og taka á móti sama fólkinu færa til bílinn og í raun sinna þannig tveimur oft erfiðum störfum. Vandamálið er ekki aksturinn eða leiðsögnin sem slíkt, heldur frekar hópstjórnunin því oft er gott samstarf milli ökumanns og leiðsögumanns einn af lyklunum að góðri hópstjórn. Þá er ég örugglega ekki eini leiðsögumaðurinn sem hefur lent í því að fá "nýjan" rútubílstjóra sem ekkert ratar, þekkir ekki götunöfn og þarf að lóðsa í gegnum miðbæin ásamt því að leiðsegja. Þá er oft betra að vera einn.

Þorsteinn Svavar McKinstry (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband