Olíuhreinsunarstöð, grín eða alvara?

Fyrir nokkrum árum sá ég frétt í sjónvarpinu um fyrirtæki eitt á Íslandi sem hafði uppi stór áform um að framleiða gervigras fyrir ameríska fótboltavelli úr gömlum hjólbörðum. Síðan hefur ekkert frekar heyrst af þessum stórtæku áformum enda stór spurning um hversu raunhæfar þessar hugmyndir voru. Ég verð að segja eins og er að fyrst þegar ég heyrði af hugmyndum um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum hélt ég hreinlega að hér væri mönnum ekki alvara. En því miður hefur komið í ljós að hér er víst full alvara á ferðinni.

Burt séð frá því að talið er svona stöð kæmi til með að  þurfa orku á við heila Kárahnjúkavirkjun. En hafa menn virkilega ekki spáð í hina gríðarlegu umferð olíuflutningaskipa inn og út fjörðinn og kringum landið? Í fréttum RÚV um daginn kom fram að um 160 skip kæmu á hverju ári með farm til og frá svona stöð. Eins og Páll Bergþórsson hefur bent á stafar skipum mikil hætta af hafís út af Vestfjörðum og því er að hans mati mjög óskynsamlegt að staðsetja olíuhreinsunarstöð þarna.

Sumt sem sagt hefur verið um þessa stöð er varla hægt að lýsa öðruvísi en furðulegu, svo ekki sé meira sagt. Ein kona segir á bloggi sínu að þetta sé mjög umhverfisvænn rekstur þar sem það sé svo mikið notað af matarolíu (!) á heimilum og veitingastöðum að ekki veiti af svona stöð til að endurvinna hana (!!!). En þegar vel gefið og gáfað fólk er farið að láta þá vitleysu út úr sér að svona stöð gæti verið kostur fyrir ferðaþjónustuna þá get ég ekki orða bundist. Um daginn var haldið málþing á Ísafirði um þetta mál og þegar Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hafði bent á að svona stöð fylgdi gríðarlega sjónmengun af stöðinni og að hún muni skaða ímynd Vestfjarða fyrir ferðamenn lét Ólafur Egilsson, einn þeirra sem vill reisa stöðina, það út úr sér að margir ættu eftir að gera sér ferð í skammdeginu til að sjá ljósadýrð stöðvarinnar (!). Ja  hérna! Ég held að það væri réttast að Ólafur myndi kynna sér upplýsingar um hvað erlendir ferðamenn eru að leita eftir þegar þeir koma til Íslands. Ég get alveg fullyrt það af minni reynslu að þeir eru ekki að leita að stóriðjuverum til að skoða! Og þar fyrir utan er yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna á ferðinni yfir sumarmánuðina þegar lítið færi fyrir hugsanlegri ljósadýrð!

Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á síðustu árum og spáð er meiri fjölgun á næstu árum. Það er hins vegar staðreynd að Vestfirðir hafa orðið nokkuð útundan í þessu. Sem dæmi má nefna að nýting gistirýmis á Íslandi 2005 var lægst á Vestfjörðum eða  23,4% þegar það var 37,2% á öllu landinu. Það sem mér hefur fundist vera helstu skýringar á þessu er að annars vegar hefur vegakerfið ekki verið með besta móti á Vestfjörðum og hins vegar hefur nokkuð skort á nægilega góða aðstöðu gagnvart ferðamönnum, hvort sem um er að ræða gistingu, veitingastaði eða afþreyingu. Þetta gerir t.d. okkur, sem starfa við að skipuleggja og selja ferðir fyrir erlenda ferðamenn, erfiðara fyrir að skipuleggja ferðir fyrir stærri hópa. Það virðist gleymast að það dugar ekki að bíða eftir að ferðamenn komi, þeir koma einfaldlega ekki fyrr en þegar aðstaðan til að taka á móti þeim er til staðar. Og möguleikarnir á að fjölga ferðamönnum á Vestfjörðum eru sannanlega fyrir hendi, Vestfirðir hafa (enn sem komið er) allt upp á að bjóða sem erlendir ferðamenn sækjast eftir. En olíuhreinsunarstöð er ekki til að styrkja þá möguleika, heldur þvert á móti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband