Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

„Fíflið á Bessastöðum“

Ólafur Ragnar Grímsson (ekki Hannesson!) var á  sínum tíma einn umdeildasti og skrautlegasti stjórnmálamaður Íslands. Fyrst komst hann á þing á vegum Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna (sem sumir vildu kalla Mistök frjálslyndra og vinstri manna) en síðar fyrir Alþýðubandalagið sálugra. Ólafur varð sjaldan orða vant, þannig eru fræg ummæli hans um skítlegt eðli þáverandi forsætisráðherra, en þau komu þó mörgum ekki á óvart sem höfðu lengi fylgst með stjórnmálaferli hans. Skort hans á almennri kurteisi virtist þó ekki hafa vafist fyrir mörgum kjósandanum þegar hann bauð sig fram til embættis Forseta íslenska lýðveldisins og svo fór sem fór. Síðan þá hefur honum gefist fjölmörg tækifæri til að sættast við andstæðinga sína.

Besta tækifærið bauðst þegar fjölmiðlafrumvarpið fræga var samþykkt með meirihlutaatkvæði þingmanna. Þá hefði hann getað blásið á getgátur um að hann væri enn í pólitík og gert eins og aðrir forsetar og samþykkt lögin án þess að ganga í berhögg við meirihluta Alþingis. En nei, hann þurfti að hafa síðasta orðið og neitaði að skrifa undir lögin.

Sá ágæti sagnfræðingur, Guðjón Friðriksson, er nú búinn að skrifa bók um Ólaf Ragnar (ekki Hannesson!). Í viðtali nýverið viðurkenndi hann frekar undrandi að hann hefði heyrt Halldór Blöndal viðhafa þau ummæli um Ólaf Ragnar (ekki Hannesson!), sem sjá má í fyrirsögn þessarar bloggfærslu. Sami Guðjón virðist vera þeirrar skoðunar að það, að Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) hafi verið kosinn forseti leiði til þess að hann óhjákvæmilega njóti þess virðingar sem áður fylgdi forsetaembættinu. Ólafur Ragnar (ekki Hannesson!) virðist á köflum vera sama sinnis, að embættinu sjálfu fylgi sjálfkrafa virðing. Guðjón þessi sagði í viðtali við Fréttablaðið (að mig minnir) að Davíð Oddson væri maður hefnda en Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) væri maður sátta. Ef það væri rétt að Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) væri maður sátta hefði hann vel getað sýnt það með því að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið fræga. Þá hefði hann getað, eins og Vigdís Finnbogadóttir gerði, vísað  í að forsetinn gengi  ekki gegn vilja meirihluta Alþingis. Hann hins vegar kaus að fara eigin leiðir og stela senunni með því að neita að skrifa undir. Það sýndi ekki sáttarhug, fjarri lagi.

Ólafur Ragnar (ekki Hannesson!) hefur fengið tækifæri til að sýna sáttarhug og til að sættast við þá sem helst voru á móti  kjöri hans. Hann kaus hins vegar að láta það eiga sig og frekar að baða sig fjölmiðlaljósinu sem sá eini forseti sem hefur gengið gegn meirihluta Alþingis. Sjálfur segi ég að ef hann hefði ekki synjað fjölmiðlafrumvarpinu heldur tekið afstöðu eins og fyrri forsetar, líkt og Vigdís þegar hún fékk tilmælin til að neita að skrifa undir  EES-samninginn, þá hefði hann vaxið mikið í mínum augum og sannarlega staðið undir  nafni sem forseti lýðveldisins.


Fjöldinn skiptir ekki máli

Margir hafa gert mikið úr þeim fjölda sem tekur þátt í mótmælunum á Austurvelli hverja helgi. Lögreglan segir eitt og mótmælendur annað. En skiptir máli hversu margir mæta eða skiptir meira máli hversu margir mæta og vita af hverju? Um daginn sá ég mynd í Fréttablaðinu af hópi fólks sem hafði verið að kasta eggjum í Alþingishúsið og veifað mótmælaspjöldum á mótmælafundinum. Á myndinni bar ég kennsl á ungt fólk sem ég hafði kennt. Ég kenni samfélagfræði á unglingastigi þ.e. landafræði, Íslandssögu og þjóðfélagsfræði. Þetta ágæta unga fólk, sem ég þekkti á myndinni, veit ég að þekkir ekki grundvallarhugtök eins og lýðræði, lýðveldi, þingræði, hvað þá að það hafði yfirsýn og þekkingu á þeim atburðum sem hafa átt sér stað að undanförnu. En það er hins vegar þeir fyrstu til að mæta þar sem er „aksjón“ og hasar.

Þegar fréttamaður Stöðvar 2 var að spyrja fólk, sem var að kasta eggjum í Alþingishúsið, hverju það væri að mótmæla varð fátt um svör. Unga konan var að mótmæla „þessu öllu“, eftir að hafa fengið hjálp frá vinkonu sinni, en annars virtist hún ekki geta mikið tjáð sig um hverju hún væri að mótmæla.

Önnur kona virtist skelfing lostin yfir því að „fólk“ færi nú að missa húsnæði sitt í stórum stíl. Vissulega eiga einhverjir eftir að lenda í vandræðum með húsnæðislánin sín en ég leyfi mér þó að efast um að meirihluti almennings eigi eftir að lenda í þeim hremmingum. Ég veit nefnilega af biturri reynslu að það þarf mikið að hafa gengið á áður en til þess kemur að húsnæði er boðið ofan af fólki.

Laganeminn, sem talaði á fundinum í dag, upplýsti í ræðu sinni skelfilega vanþekkingu á Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og almenna vanþekkingu á eðli íslenskrar stjórnsýslu og stjórnmálum. Og virtist ekki kunna annað svar en að boða hálfgerða byltingu. Mig hryllir við að hún eigi nokkurn tímann eftir að útskrifast sem lögfræðingur ef hún kann ekki að virða eðlilegar leikreglur í stjórnmálum. 

Þannig að það skiptir í raun ekki máli hversu margir mæta á Austurvöll. Það skiptir meira máli hverjir mæta vegna þess að þeir vita af hverju og hverju þeir eiginlega eru að  mótmæla.


mbl.is Íslendingar láti ekki kúga sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétta auglýsingin á þessum tímum?

Þessa heilsíðuauglýsingu var að finna í Mogganum á sunnudaginn. Ég verð að viðurkenna að mér fannst hún hálf kjánaleg svona á þessum „síðustu og verstu“ tímum. Ég vona bara að sem fæstir hafi hlaupið eftir þessu og að meirihluti fólks sé það skynsamt að átta sig á að bílar eru verstu fjárfestingar sem hægt er að hugsa sér, hvort heldur í „kreppu“ eða „góðæri“.

 


Held að hún ætti að fara að slaka á

 Jæja, nú er Anna Pála enn að  nota stóru orðin. Það sást vel á áhorfendapöllum Ráðhússins á sínum tíma að henni getur oft orðið frekar heitt í hamsi. Væntanlega hefur hún metnað til að  ná langt í pólitíkinni. En þá er kannski betra fyrir hana að fara að læra að passa hvað hún segir.

 


Sumum líður vel í dag

Í maí síðastliðnum minntist ég á að læða ein hefði tekið upp á því að taka okkur að sér sem kattahaldara. Nú, skemmst er frá því að segja að hún hefur dafnað vel og eins og sjá  má á þessari mynd líður henni bara mjög vel hjá okkur. Þannig að sennilega valdi hún rétt þegar hún ákvað að mjálma ámótlega á svölunum hjá okkur!

vaela.jpg


Hvað er að gerast?

Varla er verið að tala um allan Kópavog? Frá Kársnesi upp í fjöll (Salahverfi og efri byggðir)? Þekki sjálfur að hafa keyrt strætó í Kópavogi um vetur, það gat orðið lúmsk hálka víða og margar leiðinda brekkur sem maður þurfti að vara sig á (Brattabrekka er t.d. ótrúlega lúmsk miðað við hversu„brött“ hún er í dag). Held þó að flestar þeirra séu ekki lengur innan leiðarkerfis Strætó BS enda er minnihluti vegakerfis höfuðborgarsvæðisins í dag enn hluti af kerfi „almenningssamgangna“ á höfuðborgarsvæðinu. En að hætta alveg akstri? Og eru engir bílstjórar lengur að keyra sem kunna að keyra í hálku? Í dag eru flestir vagnar búnir spólvörn og ABS-hemlum og því ætti svona færð að vera minna mál en í „den“ þegar maður var að keyra vagna sem ekki voru með svona búnað.
mbl.is Hrina árekstra í hálkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja, þetta var þá ekki ímyndun

Ég fann eitthvað í morgun sem mér fannst vera jarðskjálfti en var ekki viss. Nú veit ég þó að það var ekki ímyndun í mér. Ég hef nefnilega ekki fundið aðal skjálftana á síðustu árum. Þegar 17. júní skjálftinn varð árið 2000 var ég að flytja í Keflavík og fann andartak fyrir smá svima en afgreiddi það sem þreytu. Við fundum þó skjálftann sem varð nokkrum dögum síðar, enda lá maður hálf sofandi upp í rúmi þá. Suðurlandskjálftann síðasta vor fann ég ekki heldur enda á gangi í Laugardalnum á leið heim til mín. Það er samt nokkuð merkilegt hvað Íslendingar verða oft hvumsa við þegar það verður jarðskjálfti, búandi í landi þar sem er stöðug skjálftavirkni sökum landreksins og sem er einnig eldvirkasta land jarðar.
mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritskoðun eða ritstýring?

Fyrir nokkrum mánuðum síðan varð mikið uppnám innan bloggsamfélagsins þegar Morgunblaðið ákvað að loka ákveðinni bloggsíðu þar sem viðkomandi bloggari hafði til langs tíma stundaði það að ausa skítkasti yfir ákveðin trúarbrögð og fylgjendur þeirra trúarbragða. „Ritskoðun“ var orðið sem hæst var hrópað á hinum ýmsu bloggsíðum og athugasemdum. Nú er svipuð hystería farin aftur í gang þar sem ákveðið hefur verið að loka á að þessi bloggari geti bloggað um fréttir á mbl.is. Ástæðan mun vera að viðkomandi hefur verið að tengja ýmsar bloggfærslur við fréttir á mbl.is án þess að þær hafi á nokkurn hátt tengst fréttunum. Morgunblaðið tekur því upp á því að loka á að þessi bloggari geti haldið þessu áfram, enda í samræmi við þær reglur sem blog.is setur notendum sínum, en hefur ekki lokað á viðkomandi blogg. Og enn og aftur er galað um að hér sé ritskoðun á ferðinni og viðkomandi bloggari kveinkar sér hástöfum og sparar ekki stóru orðin.

En hvað er blog.is? Jú, á blog.is stendur að „blog.is er vefur rekinn af Morgunblaðinu þar sem einstaklingar geta opnað sínar eigin bloggsíðu“; „mbl.is áskilur sér rétt til að loka fyrir fréttatengingar notenda sem tengja ítrekað særandi eða óviðurkvæmilegar bloggfærslur við fréttir eða færslur sem koma fréttinni ekkert við“; að „notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/194“. Og ekki síður að „Morgunblaðið áskilur sér rétt til að grípa inn í, bregðist notandi ekki við óskum eða tilmælum um leiðréttingar/lagfæringar á skrifum sem teljast meiðandi eða brjóta gegn skilmálum þessum.“

Augljósara er það varla, til að geta bloggað á blog.is gengst maður undir ákveðnar reglur og kvaðir og getur átt von á að Morgunblaðið grípi inn fari maður ekki eftir þessu. Á móti útvegar Morgunblaðið okkur vettvang til að blogga án endurgjalds.

Málið er einfalt: Ef maður treystir sér ekki til að fara eftir þeim reglum sem Morgunblaðið setur á maður á hættu að það sé lokað á bloggið eða gripið sé til annarra úrræða af hálfu Morgunblaðsins.  Þá er tvennt í stöðunni: Að sætta sig við þessar reglur og halda áfram á blogga á blog.is eða færa sig annað með sitt blogg, líkt og viðkomandi virðist ætla nú að gera. Allt tal um ritskoðun er út í bláinn. Morgunblaðið, eins og allir aðrir fjölmiðlar, hefur fullan rétt á að ritstýra því efni sem þar birtist, hvort heldur á prenti eða á vefnum.

Og í raun er virðingarvert hvað starfsfólk blog.is hefur verið umburðarlynt gagnvart viðkomandi bloggara sem hefur iðulega verið með skæting og skítkast í garð nafngreindra starfsmanna Morgunblaðsins. Það er því kannski viðeigandi að ljúka þessu með orðum Fríkirkjuprestsins forðum daga: „Farið hefur fé betra“.


Hárrétt ákvörðun Þorgerðar

Það er ótrúlegt hvað fólk getur verið að fárast yfir því að Þorgerður Katrín hafi tekið þá ákvörðun sem ráðherra íþróttamála að fara til Peking til sýna stuðning við íslenska handboltaliðið þegar það lék úrslitaleikinn. Viljum við virkilega að sá ráðherra, sem íþróttamál heyra undir, ákveði frekar að sitja heima þegar Íslendingar eru að sýna svona góðan árangur? Og hér er ekki um það að ræða að hún hafi tekið þessa ákvörðun eingöngu vegna þess að henni hafi „langað til að sjá leikinn“ eins og Jón Magnússon kemst svo (ó)smekklega að orði í þessari bloggfærslu sinni. Hún tók þessa ákvörðun sem ráðherra íþróttamála til að sýna táknrænan stuðning frá ríkisstjórn Íslands og íslensku þjóðinni. Að Jón Magnússon sjái það ekki staðfestir einfaldlega að hann ætti aldrei að verða ráðherra íþróttamála. Eða ráðherra yfir höfuð.
mbl.is Myndi taka þessa ákvörðun aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eina sem hneykslar mig ...

Fyrir allmörgum árum tók ég viðtal við Sverri Stormsker fyrir Morgunblaðið. Hann var þá enn nánast  óþekktur enda nýbúinn að gefa út sína fyrstu plötu; „Hitt er ekkert mál“. Eins og honum er líkt datt ýmislegt óborganlegt upp úr honum í þessu viðtali og þar á meðal það að það eina sem hneykslaði hann væri hneykslunargjarnt fólk. Og það eru orð sem ég hef oft gert að mínum.

Þegar ljóst var að „strákarnir okkar“ myndu keppa til úrslita um gull eða silfur á Ólympíuleikunum ákveður ráðherra íþróttamála að fljúga út til Peking til að hvetja þá til dáða og sýna stuðning. Í flestum ríkjum hefði það þótt eðlileg ákvörðun og flestum ætti að vera ljóst að það er ekki gefið að fljúga hálfa leiðina yfir hnöttinn og fá gistingu í borg þar sem helsti íþróttaviðburður heims á sér stað. En smáborgaraeðlið í Íslendingum er víst samt við sig. Nú keppist fólk við að hneykslast fram og aftur yfir þessu en virðist t.d. ekkert hafa spáð í annan kostnað við Ólympíuleikana. 

Að íþróttamálaráðherra fljúgi til Peking á svona stund hneykslar mig ekki. En eins og Stormskerið sagði um árið; það eina sem hneykslar mig er hneykslunargjarnt fólk.


mbl.is Kínaferðir kostuðu 5 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband