„Fíflið á Bessastöðum“

Ólafur Ragnar Grímsson (ekki Hannesson!) var á  sínum tíma einn umdeildasti og skrautlegasti stjórnmálamaður Íslands. Fyrst komst hann á þing á vegum Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna (sem sumir vildu kalla Mistök frjálslyndra og vinstri manna) en síðar fyrir Alþýðubandalagið sálugra. Ólafur varð sjaldan orða vant, þannig eru fræg ummæli hans um skítlegt eðli þáverandi forsætisráðherra, en þau komu þó mörgum ekki á óvart sem höfðu lengi fylgst með stjórnmálaferli hans. Skort hans á almennri kurteisi virtist þó ekki hafa vafist fyrir mörgum kjósandanum þegar hann bauð sig fram til embættis Forseta íslenska lýðveldisins og svo fór sem fór. Síðan þá hefur honum gefist fjölmörg tækifæri til að sættast við andstæðinga sína.

Besta tækifærið bauðst þegar fjölmiðlafrumvarpið fræga var samþykkt með meirihlutaatkvæði þingmanna. Þá hefði hann getað blásið á getgátur um að hann væri enn í pólitík og gert eins og aðrir forsetar og samþykkt lögin án þess að ganga í berhögg við meirihluta Alþingis. En nei, hann þurfti að hafa síðasta orðið og neitaði að skrifa undir lögin.

Sá ágæti sagnfræðingur, Guðjón Friðriksson, er nú búinn að skrifa bók um Ólaf Ragnar (ekki Hannesson!). Í viðtali nýverið viðurkenndi hann frekar undrandi að hann hefði heyrt Halldór Blöndal viðhafa þau ummæli um Ólaf Ragnar (ekki Hannesson!), sem sjá má í fyrirsögn þessarar bloggfærslu. Sami Guðjón virðist vera þeirrar skoðunar að það, að Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) hafi verið kosinn forseti leiði til þess að hann óhjákvæmilega njóti þess virðingar sem áður fylgdi forsetaembættinu. Ólafur Ragnar (ekki Hannesson!) virðist á köflum vera sama sinnis, að embættinu sjálfu fylgi sjálfkrafa virðing. Guðjón þessi sagði í viðtali við Fréttablaðið (að mig minnir) að Davíð Oddson væri maður hefnda en Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) væri maður sátta. Ef það væri rétt að Ólafur Ragnar (ekki Hannesson) væri maður sátta hefði hann vel getað sýnt það með því að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið fræga. Þá hefði hann getað, eins og Vigdís Finnbogadóttir gerði, vísað  í að forsetinn gengi  ekki gegn vilja meirihluta Alþingis. Hann hins vegar kaus að fara eigin leiðir og stela senunni með því að neita að skrifa undir. Það sýndi ekki sáttarhug, fjarri lagi.

Ólafur Ragnar (ekki Hannesson!) hefur fengið tækifæri til að sýna sáttarhug og til að sættast við þá sem helst voru á móti  kjöri hans. Hann kaus hins vegar að láta það eiga sig og frekar að baða sig fjölmiðlaljósinu sem sá eini forseti sem hefur gengið gegn meirihluta Alþingis. Sjálfur segi ég að ef hann hefði ekki synjað fjölmiðlafrumvarpinu heldur tekið afstöðu eins og fyrri forsetar, líkt og Vigdís þegar hún fékk tilmælin til að neita að skrifa undir  EES-samninginn, þá hefði hann vaxið mikið í mínum augum og sannarlega staðið undir  nafni sem forseti lýðveldisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Sem að sýnir kjark og sjálfstæði Ólafs. í fjölmiðlafrumvarpinu tók hann ákvörðun í takti við fólkið í landinu. Meira en Davíð hefur gert fyrr og síðar. ekki síst síðar

hilmar jónsson, 22.11.2008 kl. 23:32

2 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Ólafur Ragnar gerði skyldu sína, stóð forsetavaktina með sóma í umræddu tilviki.

Ólíkt eðlilegra að framkvæma þegar þörf er á ,heldur en segjast iðrast eftirá að hafa ekki gert eins og forveri hans einn .

Við höfum ekkert með manneskju að gera á þessum stóli sem ekki þorir þegar þarf!

Kristján H Theódórsson, 23.11.2008 kl. 01:35

3 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ólafur stóð sig vel í því að skrifa ekki undir fjölmiðlalöginn.  þessi lög voru meingölluð.   Hann hefur staðið sig vel í embætti og sem betur fer lætur hann sýna skoðun í ljós þó það fari í taugarnar á sumum að Ólafur hafi skoðanir þá hefur hann fullt leifi til að tjá sýnar skoðanir. 

Þórður Ingi Bjarnason, 23.11.2008 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband