Kisur á vergangi.

Nokkuð er liðið frá síðasta bloggi mínu þó svo af nóg hafi verið að taka, mótmælum vörubílstjóra o.fl. Stafar það einfaldlega af miklum önnum við  að endurnýja eldhúsið heima hjá mér og við ýmis vorverk. En nóg um það, í dag ætla ég ekki að fjalla um mál líðandi stundar heldur nokkuð persónulegt.

Síðasta  sunnudag urðum við vör við lítinn kettling, um 3-4 mánaða, sem var að sniglast í garðinum okkar. Hann var nokkuð styggur í fyrstu en kom svo upp á svalir til okkar þegar við kölluðum á hann og buðum honum skál af kattamat. Eftir smá stund fór hann að hætta sér nær okkur og endaði það með því að hann kom inn til okkar og þaðan hefur hann ekki viljað fara síðan! Þetta er læða, afskaplega blíð og  kelin og  mjálmar frekjulega á athygli ef henni finnst  hún ekki fá nóga. Og elskar að liggja í fanginu á öðru hvoru okkar og mala hástöfum. Það er öruggt að þessi kettlingur er heimavanur, ekki fæddur villtur, hann vissi t.d. strax hvernig ætti að nota kattasand. Við sendum upplýsingar og mynd í Kattholt og einnig í Moggann. Þrátt fyrir það hefur ekki nokkur maður haft samband út af henni. Það fer að læðast að manni sá óþægilegi grunur að einhver hafi hreinlega hent henni út á guð og gaddinn, einhver sem ekki var tilbúinn til að taka ábyrgð á henni lengur. Því miður er allt of mikið um það að kisur séu skildar eftir hér og þar á vergangi. Heimasíða Kattholts er full af slíkum dæmum.

Þessi kettlingur var nógu skynsamur að finna sér hús þar sem búa kattavinir og hver veit nema hún eigi eftir að dvelja hjá okkur áfram. Það er helst gamla fressið á heimilinu, Mikki að nafni, sem erkisa ekkert yfir sig hrifinn af þessum nýja fjölskyldumeðlim. En ég minni hann þá á það að hann var sjálfur kisa á vergangi á sínum tíma, fyrir um 9 árum síðan fann ég hann á flækingi við skiptistöð strætó í Kópavoginum, það var á þeim tíma þegar ég keyrði Kópavogsstrætó. Þá lét ég einnig Kattholt vita og auglýsti í Mogganum en engin gaf sig fram sem kattahaldara (ég tel aldrei rétt að segja að einhver „eigi“ kött) og því hefur hann dvalið hjá okkur síðan.

Af þessu að dæma virðist lítið hafa breyst á þessum 9-10 árum varðandi umhirðu katta, enn er til allt of mikið af fólki sem ekki kann að umgangast dýr og er ekki tilbúið til að taka ábyrgð á þeim dýrum sem það hefur fengið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband