Færsluflokkur: Matur og drykkur

Öðruvísi kjúklingaréttur

Þessi kjúklingaréttur smakkast ótrúlega vel:

Heill kjúklingur, hlutaður í sundur og settur í eldfast mót
2 dl apríkósumarmelaði
100 gr púðursykur
50 gr smjör/smjörlíki (nota sjálfur alltaf smjör)
2 dl Hunts barbeque sósa
2½ dl rjómi
1 dl sojasósa

Smjörið brætt í potti og allt blandað saman (best að gera það í þessari röð: rjómi, bbq sósa, apríkósumarmelaði, sojasósa, púðursykur).
Hitað, en má ekki sjóða, kælið aðeins niður og hellið yfir kjúklingabitana.
Fatið sett neðst í ofninn og haft í 1-1½ klst eða þar til kjúklingurinn er soðinn í gegn.


Gleðilegt ár og uppskrift dagsins

Gleðilegt nýtt ár öllsömul. Jæja, í gærkvöldi var ég með lambalæri í matinn. Ef einhver hefur áhuga á uppskriftinni þá kemur hún hér:

Lambalæri, 2-2,5 kg.
Hvítlaukur.
Blóðberg, ferskt.
Minta, fersk.
Rósmarín, ferskt.
Salt og pipar.
Hunang og Dijon-sinnep (u.þ.b. 2 matskeiðar af hvoru).

Fitusnyrtið lærið og skerið rifur með hníf hér og þar, stingið hvítlauksrifi í rifurnar og rósmarín, mintu og blóðbergi (því meira því betra).
Saltið og piprið.

Setjið lærið í 220° heitan ofn í u.þ.b. 10-15 mínútur og lækkið svo hitann í 175°.
Steikið í u.þ.b. 45 mínútur á kíló.
Síðust 10-15 mínútur berið á blöndu af hunangi og Dijon-sinnepi.
Látið standa í 10-15 mínútur áður en lærið er skorið.

Sósa:

Blóðberg, ferskt.
Rósmarín, ferskt.
Minta, fersk.
Einiber.
Smátt saxaðir sveppir.
2 1/2 dl. rjómi.
Villibráðakraftur.

Blóðberg, minta, rósmarín og einiber sett í pott með 5-7 dl. af vatni. Látið koma upp suðu og látið malla í 1-2 klukkustundir. Sigtið soðið. Bræðið smá smjör í pott og steikið sveppina þangað til þeir eru orðnir að mauki. Setjið soðið saman við og hitið að suðu. Bætið við rjóma og látið sjóða hægt smá stund. Þykkið með sósujafnara og bragðbætið með villibráðakrafti.

Verði ykkur að góðu!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband