Færsluflokkur: Kvikmyndir

„To Boldly Go ...“

Var að horfa á Star Trek: The Wrath of Khannú um helgina en þetta er að mínu mati með betri Star Trek myndunum. Fann myndina á VHS spólu í Kolaportinu um daginn og held að hún hafi kostað 2-300 krónur. Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt varðandi Star Trek og nú fyrr í vetur sagði einn samstarfsmaður minn, sem er bandarískur að uppruna, að setningin fræga „To Boldly Go” væri strangt til tekið málfræðilega röng í ensku. Réttara væri að segja „To Go Boldly“, þ.e. ekki mætti setja lýsingarorð á milli nafnháttarmerkisins og sagnorðsins. Sagði hann einnig að Gene Roddenberry, höfundur Star Trek, hafi verið harðlega gagnrýndur á sínum tíma af enskufræðingum. Roddenberry var að mörgu leyti byltingarmaður á sínum tíma og er þetta bara eitt dæmi um hvernig hann ögraði viðurkenndum staðreyndum þess tíma svo sem með því að hafa meðal aðalsöguhetja Rússa, svarta konu og Japana. Það er því kannski ekki tilviljun að í þessari mynd eru tveir samkynhneigðir karlmenn meðal aðalleikara; þeir George Takei og Paul Winfield.

Titanic hin oflofaða

Ég sleppti því þessi jólin að fara í bæinn á Þorláksmessukvöld, hreinlega nennti því ekki í kuldanum. Horfði á síðari hlutann af myndinni Titanic eftir James Cameron, en ég sá þessa mynd upprunalega í kvikmyndahúsi þegar ég bjó í Bandaríkjunum. James Cameron hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér sem leikstjóri og á hann 3 myndir inn á topp listanum, sem ég er að setja saman um mínar uppáhaldsmyndir þ.e. Terminator, Terminator-2 og Aliens. Ég skal alveg viðurkenna að ég var með hálfgerðan kökk í hálsinum í lokin á myndinni þegar ég sá hana á sínum tíma. En fannst þó þá og finnst enn að hún sé alltof oflofuð. Framan af er myndin allt of langdregin og ástarsamband Jack og Rose allt of fyrirferðarmikið. En þegar skipið rekst á ísjakann fer myndin loks að hrökkva í gang og á lokamínútum hennar sýnir Cameron hvað hann getur (gat?) þegar skipið er að sökkva. Samt truflaði það mig alltaf og gerir enn eltingaleikur Billi Zane og David Warner við skötuhjúin þegar skipið er við það að sökkva, mætti halda að menn væru með hugann við annað á sökkvandi skipi.

En hvernig Cameron endurgerir síðustu mínútur skipsins sýnir hvers hann er megnugur og sagan segir að áhættuleikararnir hafi vel unnið fyrir kaupinu sínu. Samt dettur hann of oft í væmnina svo sem í atriðinu þegar móðirin er að segja börnum sínum ævintýri í káetunni (en móðirin er leikin af Jenette Goldstein, en hún sýndi snilldartaka á sínum tíma í hlutverki sínu sem Vasquez í Aliens). Er ein slakasta mynd Cameron og ótrúlegt að hún hafi hlotið 11 Óskarsverðlaun á sínum tíma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband