Leiðsögumaður eða farastjóri?

Hér á Íslandi er iðulega ákveðinn misskilningur í gangi varðandi starfsheitið „leiðsögumaður“. Í fréttflutningi síðustu daga af því þegar skosk kona og sonur hennar urðu viðskila við hóp sinn á Langjökli, sem reyndar endaði giftusamlega, er sí og æ talað um „leiðsögumenn“ viðkomandi vélsleðaleigu. Og skemmst er að minnast á grein fyrrverandi þjóminjavarðar í Morgunblaðinu fyrr í vetur og gagnrýni hans á „leiðsögn“ ákveðins fyrirtækis hér í bæ.

Hér ætla ég ekki að fella neinn dóm um hvort viðkomandi fyrirtæki, sem skipuleggur vélsleðaferðir á Langjökul, hafi brugðist rangt við eður ei. Né heldur fella dóm yfir fyrirtæki því, sem skipuleggur draugsferðir um Reykjavík.

Réttara er að kalla starfsmenn slíkra fyrirtækja fararstjóra. Þeir stjórna ferðinni, hvort heldur það er gönguferð um Reykjavík eða snjósleðaferð, en þeir „leiðsegja“ alls ekki. Fagmenntaður leiðsögumaður er fær um að segja frá landnámi Íslands, jarðfræði landsins, sögu einstakra staða, tala um birkiskóga, hvönn og lúpínu, útskýra  af hverju Herðubreið er eins og hún er en Möðrudalsfjallgarður allt öðru vísi (þó hvort tveggja hafi myndast við eldsumbrot undir jökli). Það er leiðsögumaður. Annað ekki. Og löngu orðið tímabært að lögvernda starfsheitið leiðsögumaður.

Það sem þessi tvö dæmi sýna og sanna er, að hver sem er hér á landi getur kallað sig „leiðsögumann“ án þess að hafa til þess nám eða réttindi. Ég er einn þeirra sem hefur lokið námi úr Leiðsöguskóla Ísland og er því meðlimur í Félagi Leiðsögumanna. Námið tók einn vetur og var kvöldnám þrjú kvöld í viku auk nokkurra helgarferða. Tekið er próf í fjölda greina s.s. í tungumálanotkun (í því tungumáli sem viðkomandi vill leiðsegja í), sögu, svæðislandafræði, jarðfræði, atvinnumálum og skyndihjálp svo fátt eitt sé nefnt. Vilji maður bæta við sig tungumáli þarf maður að taka munnlegt próf í því tungumáli. Ég tók t.d. Leiðsöguskólann á ensku og tók seinn próf í dönsku til að hafa til þess réttindi og telst því hafa réttindi sem leiðsögumaður á ensku og dönsku. Telst því hafa réttindi er víst rétt orðalag því starfsheitið „leiðsögumaður“ er alls ekki lögverndað.

Nú vill svo til að ég ber lögverndað starfsheiti. Ég hef lokið kennsluréttindanámi við KHÍ og hef leyfisbréf frá menntamálaráðuneyti að kalla mig bæði grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Skólastjórar geta undir ákveðnum kringumstæðum og með leyfi sérstakrar undanþágunefndar fengið undanþágu til að ráða fólk án kennsluréttinda. Þeir hinir sömu hafa þó ekki leyfi til að kalla sig kennara heldur eru þeir kallaðir „leiðbeinendur“. Ekki ætla ég að gera  lítið úr þeirra  störfum enda starfaði ég sjálfur sem leiðbeinandi í nokkur ár áður en ég fékk til þess réttindi.

En sama vorið og ég lauk náminu við KHÍ lauk ég námi við Leiðsöguskólann. Ég fékk formleg leyfisbréf frá menntamálaráðherra að kalla mig grunn- og framhaldsskólakennara, en nú 4 árum síðar þarf ég enn að horfa upp á fólk kalla sig leiðsögumenn án þess að hafa lokið neinu námi i leiðsögn ferðamanna.

 Og það er e.t.v. málið. Að hver sem er getur kallað sig „leiðsögumann“. Það er í raun lítið mál að stofna fyrirtæki í ferðaþjónustu og bjóða upp á ákveðnar ferðir með „leiðsögn“. 

Annað til umhugsunar. Hér upp á vegg fyrir framan við mig hanga tvö leyfi. Annað er frá Ferðamálastofu að ég (eða fyriræki mitt) hafi leyfi sem ferðaskipuleggjandi. Það leyfi var lítið mál að fá og tók og tók stuttan tíma. Sama leyfi og draugaferðafyrirtækið og snjósleðaleigan hafa. Hitt leyfið er frá Vegagerðinni og er það sem kallast „almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga “. Það leyfi þurfti ég að fá þegar ég keypti mér smárútu til að aka um með ferðamennina mína. Til þess að fá það leyfi þurfti ég að fara á viku námskeið á vegum Vegerðarinnar og skila inn pappírum, undirrituðum að löggiltum endurskoðanda, um að ég hefði ákveðna fjárhagslega stöðu til þess að reka bifreið til farþegaflutninga. Og þess heldur þarf að fara með bílinn, sem ég nota í það, í sérstaka skoðun árlega (fyrir utan þessa hefðbundnu skoðun). Í þessari skoðun er athugað hvort öll öryggisatriði eru í lagi, s.s. slökkvitæki og sjúkrakassi og jafnvel hvernig bíllin lítur út, ef hann er of ryðgaður eða illa farinn að utan getur farið svo að hann fengi ekki skoðun.

Og ef mér dytti svo í hug að stofna bílaleigu þyrfti ég að sækja um sérstakt leyfi til þess til Vegagerðarinnar, tryggja bílana og skrá þá sérstaklega sem bílaleigubíla.

En vélsleða og fjórhjól? Ekkert slíkt. Bara leyfi sem ferðaskipuleggjandi en ekkert eftirlit með vélum og búnaði.

Er þetta eðlilegt? Og það að hver sem er geti kallað sig leiðsögumann?

Spyr sá sem ekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband