Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Leiðsögumaður eða farastjóri?

Hér á Íslandi er iðulega ákveðinn misskilningur í gangi varðandi starfsheitið „leiðsögumaður“. Í fréttflutningi síðustu daga af því þegar skosk kona og sonur hennar urðu viðskila við hóp sinn á Langjökli, sem reyndar endaði giftusamlega, er sí og æ talað um „leiðsögumenn“ viðkomandi vélsleðaleigu. Og skemmst er að minnast á grein fyrrverandi þjóminjavarðar í Morgunblaðinu fyrr í vetur og gagnrýni hans á „leiðsögn“ ákveðins fyrirtækis hér í bæ.

Hér ætla ég ekki að fella neinn dóm um hvort viðkomandi fyrirtæki, sem skipuleggur vélsleðaferðir á Langjökul, hafi brugðist rangt við eður ei. Né heldur fella dóm yfir fyrirtæki því, sem skipuleggur draugsferðir um Reykjavík.

Réttara er að kalla starfsmenn slíkra fyrirtækja fararstjóra. Þeir stjórna ferðinni, hvort heldur það er gönguferð um Reykjavík eða snjósleðaferð, en þeir „leiðsegja“ alls ekki. Fagmenntaður leiðsögumaður er fær um að segja frá landnámi Íslands, jarðfræði landsins, sögu einstakra staða, tala um birkiskóga, hvönn og lúpínu, útskýra  af hverju Herðubreið er eins og hún er en Möðrudalsfjallgarður allt öðru vísi (þó hvort tveggja hafi myndast við eldsumbrot undir jökli). Það er leiðsögumaður. Annað ekki. Og löngu orðið tímabært að lögvernda starfsheitið leiðsögumaður.

Það sem þessi tvö dæmi sýna og sanna er, að hver sem er hér á landi getur kallað sig „leiðsögumann“ án þess að hafa til þess nám eða réttindi. Ég er einn þeirra sem hefur lokið námi úr Leiðsöguskóla Ísland og er því meðlimur í Félagi Leiðsögumanna. Námið tók einn vetur og var kvöldnám þrjú kvöld í viku auk nokkurra helgarferða. Tekið er próf í fjölda greina s.s. í tungumálanotkun (í því tungumáli sem viðkomandi vill leiðsegja í), sögu, svæðislandafræði, jarðfræði, atvinnumálum og skyndihjálp svo fátt eitt sé nefnt. Vilji maður bæta við sig tungumáli þarf maður að taka munnlegt próf í því tungumáli. Ég tók t.d. Leiðsöguskólann á ensku og tók seinn próf í dönsku til að hafa til þess réttindi og telst því hafa réttindi sem leiðsögumaður á ensku og dönsku. Telst því hafa réttindi er víst rétt orðalag því starfsheitið „leiðsögumaður“ er alls ekki lögverndað.

Nú vill svo til að ég ber lögverndað starfsheiti. Ég hef lokið kennsluréttindanámi við KHÍ og hef leyfisbréf frá menntamálaráðuneyti að kalla mig bæði grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Skólastjórar geta undir ákveðnum kringumstæðum og með leyfi sérstakrar undanþágunefndar fengið undanþágu til að ráða fólk án kennsluréttinda. Þeir hinir sömu hafa þó ekki leyfi til að kalla sig kennara heldur eru þeir kallaðir „leiðbeinendur“. Ekki ætla ég að gera  lítið úr þeirra  störfum enda starfaði ég sjálfur sem leiðbeinandi í nokkur ár áður en ég fékk til þess réttindi.

En sama vorið og ég lauk náminu við KHÍ lauk ég námi við Leiðsöguskólann. Ég fékk formleg leyfisbréf frá menntamálaráðherra að kalla mig grunn- og framhaldsskólakennara, en nú 4 árum síðar þarf ég enn að horfa upp á fólk kalla sig leiðsögumenn án þess að hafa lokið neinu námi i leiðsögn ferðamanna.

 Og það er e.t.v. málið. Að hver sem er getur kallað sig „leiðsögumann“. Það er í raun lítið mál að stofna fyrirtæki í ferðaþjónustu og bjóða upp á ákveðnar ferðir með „leiðsögn“. 

Annað til umhugsunar. Hér upp á vegg fyrir framan við mig hanga tvö leyfi. Annað er frá Ferðamálastofu að ég (eða fyriræki mitt) hafi leyfi sem ferðaskipuleggjandi. Það leyfi var lítið mál að fá og tók og tók stuttan tíma. Sama leyfi og draugaferðafyrirtækið og snjósleðaleigan hafa. Hitt leyfið er frá Vegagerðinni og er það sem kallast „almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga “. Það leyfi þurfti ég að fá þegar ég keypti mér smárútu til að aka um með ferðamennina mína. Til þess að fá það leyfi þurfti ég að fara á viku námskeið á vegum Vegerðarinnar og skila inn pappírum, undirrituðum að löggiltum endurskoðanda, um að ég hefði ákveðna fjárhagslega stöðu til þess að reka bifreið til farþegaflutninga. Og þess heldur þarf að fara með bílinn, sem ég nota í það, í sérstaka skoðun árlega (fyrir utan þessa hefðbundnu skoðun). Í þessari skoðun er athugað hvort öll öryggisatriði eru í lagi, s.s. slökkvitæki og sjúkrakassi og jafnvel hvernig bíllin lítur út, ef hann er of ryðgaður eða illa farinn að utan getur farið svo að hann fengi ekki skoðun.

Og ef mér dytti svo í hug að stofna bílaleigu þyrfti ég að sækja um sérstakt leyfi til þess til Vegagerðarinnar, tryggja bílana og skrá þá sérstaklega sem bílaleigubíla.

En vélsleða og fjórhjól? Ekkert slíkt. Bara leyfi sem ferðaskipuleggjandi en ekkert eftirlit með vélum og búnaði.

Er þetta eðlilegt? Og það að hver sem er geti kallað sig leiðsögumann?

Spyr sá sem ekki veit.


Ekki-frétt kvöldsins

Ég hef áður furðað mig á fréttamennsku Stöðvar 2 og í kvöld (7. febrúar 2010) var ein frétt á Stöð 2 sem ég skil ekki alveg um hvað er eða hvaða erindi hún á við landsmenn. Þetta var frétt númer 2 í kvöldfréttatímanum. Hún fjallaði um að framkvæmdastjóri einn hjá Seðlabankanum hefði fyrir nokkrum árum síðan stofnað fyrirtæki, ásamt Steingrími Wernerssyni, um framleiðslu á heimildarkvikmyndum. Og að fyrirtækið hefði fjárfest í heimildarkvikmynd sem nefnist „Feigðarflan“.

Og enn spyr ég; hver er eiginleg fréttin? Hvaða máli skiptir það að menn hafi stofnað fyrirtæki til að styrkja heimildamyndagerð? Þó svo að annar þeirra sé Steingrímur Wernersson, sem er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara, er ekki þar með sagt að allt, sem hann hafi komið nálægt, sé vafasamt.

Eina áhugaverða við þessa frétt er heitið á heimildamyndinni, Feigðarflan. Skyldi hún nokkuð vera um aðdraganda bankahrunsins?

Feigðarflan


Hélt hann ætti þetta ekki til

Eins og sjá má á síðustu færslu minni þá hvarflaði ekki að mér að hann myndi ekki skrifa undir. En svo lengi lærir maður sem maður lifir. Og maður verður víst að éta ofan í sig það sem maður sagði í síðustu færslu. En eins og sagði í síðustu færslu þá hækkar hann allmikið í áliti hjá mér við þetta (sem var svo sem ekki mikið), þ.e. að vera samkvæmur sjálfum sér einu sinni.

Hitt er svo umhugsunarvert hvort það sé yfirhöfuð leggjandi á eina persónu að vega það og meta hvort tiltekið mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eður ei. Óháð því hvað fólki finnst um núverandi forseta, finnst mér almennt séð að það ætti ekki að vera ákvörðun eins manns hvort eitthvert mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og í raun og veru ekki sanngjarnt að ætlast til þess af einum ákveðnum manni, hver svo sem hann er, að taka slíka ákvörðun. Kannski er nú hægt að sameinast um að breyta stjórnarskránni á þann veg að taka synjunarvald forsetans út og setja inn annað ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. að ákveðinn meirihluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og eða ákveðinn hluti þingmanna.

Það myndi hjálpa til við að skapa sátt um forsetaembættið og þær persónur, sem gegna því embætti hverju sinni.


mbl.is Staðfestir ekki Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti í vanda

Ólafur Ragnar hefur verið í nokkurri klípu undanfarið, á hann að skrifa undir Icesave frumvarpið svo kallaða eða ekki. Hann hefur reyndar verið í meiri vanda út af þessu máli en ella þar sem hann opnaði sjálfur fyrir þann möguleika, að forseti synji lögum staðfestingar, þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið fræga um árið.

Og ekki minnkar vandi hans við það að nú er starfandi ríkisstjórn, sem var mynduð undir hans verndarvæng á Bessastöðum og er undir forystu gamalla samherja í pólitík.

Margir hafa bent á að til að vera samkvæmur sjálfum sér ætti Ólafur Ragnar nú að neita að staðfesta Icesave frumvarpið. Í því sambandi má ekki gleyma því að Ólafur Ragnar er gamall pólitískur refur og hefur í gegnum árin sjaldnast verið samkvæmur sjálfum sér. Því ætti ekki að vefjast fyrir honum nú að réttlæta það á einhvern hátt að hann staðfesti frumvarpið. Enda sagði hann í áramótaávarpinu að „ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana“ forsetans.

Fari þó svo að hann verði samkvæmur sjálfum sér og neiti að staðfesta frumvarpið svo það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (ekki nema ríkisstjórnin myndi þá draga það til baka eins og gerðist með fjölmiðlafrumvarpið) myndi hann vaxa mikið í áliti hjá mér. Og koma mér þá heldur mikið á óvart.


mbl.is Blaðamannafundur í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfðu á björtu hliðarnar, Eiður.

Fyrir um aldarfjórðungi síðan (skelfilega er maður orðinn gamall) var Sverrir nokkur Stormsker að hefja feril sinn sem tónlistarmaður (með meiru) og að gefa út sína fyrstu plötu. Plata þessi fór nokkuð fyrir brjóstið á mörgum þar sem textar plötunnar fjölluðu mikið um „hitt“ og þetta og þóttu margir æði vafasamir. Sjálfur sagði maðurinn ekki hneykslast á neinu  nema hneykslunargjörnu fólki.

Á þeim tíma virtust margir ekki skilja Stormsker og enn virðast sumir ekki skilja hann enn í dag. Svo hneykslaður varð „former ambassador“ af greinakorni, sem Sverrir skrifaði í síðasta Laugardagsmogga, að sá ágæti maður er nú „loksins búinn“ að segja upp Mogganum.

Mér datt nú bara i hug eftirfarandi ljóðlínur:

„Horfðu á björtu hliðarnar, heimurinn hann gæti verið verri,
horfðu á björtu hliðarnar, heimurinn á ennþá menn eins og Sverri,
sem allt lýsir upp.“

Hafðu þetta í huga, „former ambassador“.

Og fyrir þá sem ekki eru svo skynsamir að vera áskrifendur af Mogganum, þá kemur greinin hans hérna:

untitled-1_copy_942837.jpg


Sannleikurinn um hlýnun jarðar?

umhverfi.gif

Hver var eiginlega fréttin?

Í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld var að finna furðuleg frétt um meint vanhæfni dómara við Hæstarétt Íslands. Fréttamaðurinn hóf fréttina á að segja að allir núverandi dómarar við Hæstarétt ættu tvennt sameiginlegt, þeir væru allir lögfræðingar (skrítið!) og þeir hefðu allir verið skipaðir af ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum. Eftir að hafa talið upp hvaða ráðherra skipaði hvaða dómara fór fréttamaðurinn að tala almennt um vanhæfni dómara og velta fyrir sér hvor einhver þeirra kynni að vera vanhæfur í hugsanlegri málsókn í framtíðinni. 

Og loksins klykkir hann út með að „að fréttastofu [sé] ekki kunnugt um nein dæmi þess að því hafi verið haldið fram með rökum að dómarar við réttinn hafi dregið taum Sjálfstæðisflokksins í dómum.“

Hver er þá tilgangur fréttarinnar? Að upplýsa það að dómarar við Hæstarétt séu lögfræðingar!? Kannski á fréttamaðurinn eftir að fylgja þeirri uppgötvun eftir með því að ekki bara séu dómarar við Hæstarétt lögfræðingar heldur einnig allir dómarar við Héraðsdómstólana!

Það að allir núverandi dómarar hafi verið skipaðir af ráðherra Sjálfstæðisflokksins er ekki skrítið í ljósi þeirrar staðreyndar að Sjálfstæðisflokkurinn fór með ráðuneyti dómsmála í 18 ár, eða frá 1991-2009.

Um vanhæfni dómara, eins og annarra embættismann, gilda svo ákvæði Stjórnsýslulaga en fer engan vegin eftir því hvaða ráðherra skipaði dómarann.

Nei, svo virðist sem eini tilgangurinn með „fréttinni“ hafi verið að ýja að því að allir dómarar við Hæstarétt væru vanhæfir vegna meintra tengsla þeirra við Sjálfstæðisflokkinn.

Kannski ætti Blaðamannfélag Íslands og Norrænu blaðamannasamtökin að hafa meiri áhyggjur af „fagmennsku“ fréttamanna en hverjir ritstýra Morgunblaðinu.

frett_942818.jpg


Skondin tilviljun?

Einn af þeim blaðamönnum, sem fékk uppsagnarbréf í dag, er formaður Blaðamannafélags Íslands. Þó svo að formaðurinn beri sig mannalega (má maður nokkuð segja svona í dag um konur? Hvað segir Femínistafélagið um það?) er ljós að hann (formaðurinn) er ekki sæll með þá ákvörðun og ósáttur við eigendur blaðsins, eins og sjá má af þessum ummælum.

Sama kvöld kemur harðorð ályktun frá stjórn Blaðamannafélags Íslands um þessar uppsagnir. Tilviljun? Varla.


mbl.is Harmar uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkmikil ákvörðun

Hvaða skoðun sem fólk hefur á Davíð Oddssyni er þetta óneitanlega kjarkmikil ákvörðun hjá eigendum Morgunblaðsins, vitandi vel hversu umdeildur Davíð er. Sjálfur hef ég ekki miklar áhyggjur af því að Morgunblaðið muni breytast í „varðturn sérhagsmuna ákveðinnar deildar innan Sjálfstæðisflokksins“, líkt og formaður Blaðamannafélagsins orðar það svo smekklega. Eigendur og útgefandi Morgunblaðsins eru það sjóaðir í fyrirtækjarekstri að þeir vita það ósköp vel að slíkur fjölmiðill myndi aldrei halda þeirri útbreiðslu og því trausti, sem Morgunblaðið hefur haft. Og ég efast um að þeir, sem hæst hafa um þetta hér á Moggablogginu, séu yfir höfuð áskrifendur af Morgunblaðinu. Hvað þá að það verði mikill missir af því þó þeir hætti að blogga.
mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri menn alltaf jafn málefnalegir og kurteisir

Ég er satt best að segja hættur að vera hissa á almennum skorti á kurteisi hjá vinstri mönnum og virðingarleysi fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum.

Eða eru menn kannski búnir að gleyma þegar lætin voru hvað mest á borgarstjórnafundinum um árið og fúkyrðum kallað að þáverandi borgarstjóra, Ólafi Magnússyni?

„Búsáhaldabyltingin“ svo kallaða er svo al besta dæmið; hróp gerð að alþingismönnum og ráðherrum, lögregla grýtt með eggjum, skyri og öðru þaðan að verra. „Rithöfundur Íslands“ hreytir í forsætisráðherra og steytir hnefa. „Vanhæf ríkisstjórn“ kyrjað í kór.

En hvað gerist svo? Ný ríkisstjórn tekur við, skuldir heimilanna halda áfram að hlaðast upp, Icesave samningurinn samþykktur, atvinnuleysi eykst, ríkisstjórnin virðist ráðalaus og forsætisráðherrann vill ekki ræða við erlenda fjölmiðla.

En er farið aftur út á torgin og pottar slegnir og kyrjað um vanhæfa ríkisstjórn?

Ó nei, ríkisstjórnin verður víst að fá „vinnufrið“ fyrir mótmælendum. Enda sennilega of uppteknir við að baula á Sjálfstæðismenn í borgarstjórn, fyrst þeim tókst að hrekja þá úr ríkisstjórn. Ríkisstjórnin er að sjálfsögðu ekki vanhæf, bara borgarstjórn Reykjavíkur.

 


mbl.is Sala í HS Orku samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband